Smávegis um staðreyndir og bull

„Þess vegna tölum við um þetta kjörtímabil sem ár hinna töpuðu, glötuðu tækifæra. Þess vegna er hagvöxturinn ekki hér, vegna þess að valin var röng leið.“ (Bjarni Benediktsson, 14. Mars 2013)

„Tjónið af þessari ríkisstjórn er orðið meira en tjónið af hruninu, þau klikkuðu á því að taka á lánamálum heimilanna, fjárfesting fór í sögulegt lágmark, atvinnuleysi hefur aukist meira en það þurfti að gera - þegar allt kemur saman þá er það tjón meira en nam hruninu sjálfu." (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 28. apríl 2012.)

Menn eða mýs?

Ef þingflokksformenn stjórnarflokkanna mótmæla ekki dæmalausum og ómaklegum ummælum Vigdísar Hauksdóttur í garð starfsmanna Alþingis, hljóta þeir að vera henni sammála. Ef formenn allra þingflokka á Alþingi í nafni þingmanna flokkanna taka ekki upp hanskann fyrir starfsfólk Alþingis hljóta þeir einnig að vera sömu skoðunar. Sama á við um forseta Alþingis. Ef formenn stjórnarflokkanna mótmæla ekki ummælum áhrifamesta þingmanns ríkisstjórnarinnar um starfsfólk þingsins þá eru þeir mýs.

Lífróður

Það er kraumandi ólga í stjórnarflokkunum vegna þeirrar andstöðu sem er að magnast upp í þjóðfélaginu gegn ríkisstjórninni. Forystumenn flokkanna reyna nú allt hvað þeir geta til að snúa samfélagsumræðunni sér í hag. Það mun þeim ekki takast með áframhaldandi stappi um ESB umsóknina og svikin loforð í þeim efnum. Þeim hefur heldur ekki gengið vel að fóta sig í fjölmiðlum um þau mál svo ekki sé meira sagt og þykja ótrúverðugir í málsvörninni.
Því er nú allt kapp lagt á að lagafrumvarpi eða frumvörpum um stóru millifærsluna verði hent inn í þingið sem fyrst, jafnvel innan nokkurra daga. Eins má búast við því að Bjarni Benediktsson sýni eitthvað á spilin fyrir laugardaginn í þeirri von að slá á boðuð mótmæli gegn ríkisstjórninni. Með því á að reyna að dreifa athyglinni frá ESB klúðrinu og fá almenning til að tala um annað í þeirri von að samfélagið róist.

Landsbankinn greiðir milljarða í ríkissjóð

Landsbankinn hagnaðist um 28,8 milljarða á síðasta ári eftir skatta. Stærsti hluti hagnaðarins er til kominn vegna aukins virðis útlána. Bankinn greiðir eigendum sínum 20 milljarða í arð vegna ársins 2013 en 10 milljarðar voru greiddir í arð vegna ársins á undan.

Orð skulu standa

Í haust voru sýndir í sjónvarpinu þættir um íslenskt mál frá öðru sjónarhorni og með öðrum hætti en gert var í útvarpinu lengi vel. Þetta voru afar vel heppnaðir og skemmtilegir þættir sem vonandi verður framhald á.

Af hverju eru þau svona reið?

Á síðustu tveim dögum hafa tveir ráðherrar framsóknarflokksins og áhrifamesti þingmaður þeirra neitað að ræða við Ríkisútvarpið nema gegn sérstökum skilyrðum. Þessi, þessi og þessi.
Hvað er að þessu fólki? Af hverju eru þau svona reið og fúl?
Hvað finnst öðrum fjölmiðlum um þetta?
Hvað finnst Blaðamannafélagi Íslands um þetta?
Hvað finnst menntamálaráðherranum um þetta?
Hvað finnst almenningi um það að vera neitað um sjálfsagðar upplýsingar?
Hvað finnst þeim sem standa fyrir frelsi fjölmiðla og aðgengi almennings að upplýsingum um þetta?
Er öllum kannski orðið sama?

Sjálfum okkur næg?

Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sagði við setningu Búnaðarþings að Íslendingar mættu ekki verða upp á aðrar þjóðir komnir með matvælaframleiðslu. Það er auðvitað gott markmið í sjálfu sér og eitthvað sem flestar þjóðir huga að með ýmsum hætti.

Nokkrar íslenskar kerlingar ...

Í tilefni ræðu Sindra Sigurgeirssonar, formanns Bændasamtakanna, við setningu Búnaðarþings rifjaðist upp fyrir mér símtal sem ég fékk frá manni sem sagðist hafa verið á fundi með ungum róttækum bónda og frambjóðanda framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Sá róttæki hafi sett á mikla ræðu um mikilvægi þess að blása til stórsóknar í íslenskum landbúnaði og horfa þá vel út fyrir heimatúnið. Taldi hann færin helst felast í auknum útflutningi landbúnaðarafurða til fjarlægra heimsálfa og lægi þá Asía best við af öllum álfum heimsins. Evrópa væri hvorki nógu fjölmenn né burðug að efnum til að geta tekið við vextinum sem sá róttæki sá fyrir sér í íslenskum landbúnaði.

Svo galin eru þau ekki - eða hvað?

Það er eitt öðru fremur sem ég á erfitt með að skilja varðandi síðustu vikuna í íslenskri pólitík.
Hvers vegna lét sjálfstæðisflokkurinn hafa sig út í þessa vitleysu?
Hvað varð þess valdandi að Bjarni Benediktsson ákvað að láta flokkinn sinn taka á sig þennan mikla skell? Vanmat á aðstæðum er ekki gild skýring. Það vissu allir sem á annað borð eru með pólitískri meðvitund hver viðbrögðin yrðu við svona harkalegri tillögu og galinni málsmeðferð. Þetta virðist hafa verið meðvituð ákvörðun, tekin í ákveðnum tilgangi og með eitthvað markmið í huga. En það misstóks algjörlega, svo vægt sé til orða tekið.

Varnagli - ný nálgun í pólitík

Frosti Sigurjónsson, þingmaður framsóknarflokksins, hefur loksins útskýrt í hverju meint kosningasvik flokksins eru fólgin. Flokkurinn hafi nefnilega mismunandi kosningastefnu og lofað kjósendum einu og öðru eftir því með hvaða flokki eða flokkum framsókn færi  í ríkisstjórn. Þannig hafi flokkurinn lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB EF framsókn færi í samstarf með flokkum sem vildu halda þeim áfram en annars ekki. Þetta var ástæðan fyrir því hvað framsóknarflokkurinn gat lofað miklu um allt og ekkert fyrir síðustu kosningar og líka hvers vegna hann þarf ekki að standa við loforðin. Hugmyndin með þessu var að framsóknarflokkurinn myndi aldrei svíkja nokkurn mann heldur miðuðust loforðin við vilja samstarfsflokksins, hver sem hann yrði og það myndi því alltaf verða sá flokkur sem sviki kjósendur en ekki framsókn.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS