Í tilefni ræðu Sindra Sigurgeirssonar, formanns Bændasamtakanna, við setningu Búnaðarþings rifjaðist upp fyrir mér símtal sem ég fékk frá manni sem sagðist hafa verið á fundi með ungum róttækum bónda og frambjóðanda framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Sá róttæki hafi sett á mikla ræðu um mikilvægi þess að blása til stórsóknar í íslenskum landbúnaði og horfa þá vel út fyrir heimatúnið. Taldi hann færin helst felast í auknum útflutningi landbúnaðarafurða til fjarlægra heimsálfa og lægi þá Asía best við af öllum álfum heimsins. Evrópa væri hvorki nógu fjölmenn né burðug að efnum til að geta tekið við vextinum sem sá róttæki sá fyrir sér í íslenskum landbúnaði. Sá róttæki vildi meina að það yrði að hugsa stórt í þessu sem öðru og vera ekki með neinn heimóttarskap.
„Svo fara nokkrar íslenskar kerlingar á lágkolvetnis- megrunarkúr og þá klárast allt hér heima og við þurfum að flytja inn smjör og fitu til að eiga ofan í þær,“ sagði símavinurinn. Og bætti svo við: „Hvað áttu þeir í Asíu að borða á meðan á kolvetniskúrnum stóð? Það hefði orðið skelfingarástand þar eystra.“
Það var fátt um svör.
Eins og svo oft áður.