Ein af kröfum Búsáhaldabyltingarinnar var að stjórnmálamenn tækju upp nýja siði við stjórn landsins. Gerð var krafa um aukið samráð, þvert á flokka, milli flokka, innan flokka og milli stjórnmálaflokka og þeirra sem utan þeirra standa. Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar brást við þessu ákalli með margvíslegum hætti. Tveir utanþingsráðherrar tóku sæti í ríkisstjórn vorið 2009. Þingsköpum var breytt til að auka vægi minnihlutans á Alþingi. Skipaðir voru fjölmargir þverpólitískir starfshópar til að fást við stór pólitísk mál á borð við afnám verðtryggingar, stjórn fiskveiða, afnám gjaldeyrishafta, skuldamál heimila og fyrirtækja, breytingar á stjórnarskránni, umsóknina um ESB, rammaáætlun og mörg fleiri mál.