Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis, var ekki barnanna bestur í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili. Þó vildu menn trúa því að hann meinti það sem hann sagði við setningu þingsins í fyrra um mikilvægi þess að efla traust og virðingu á Alþingi.
Ef Einar Kristinn væri góður þingforseti myndi hann senda þingið heim í dag og boða til næsta fundar eftir helgi. Í millitíðinni myndi hann ræða við formenn stjórnmála- og þingflokka um hvort ná mætti samkomulagi um störf þingsins, ekki síst um þingsályktunartillögu um afturköllun aðildar að ESB. Það er nákvæmlega ekkert sem rekur svo á eftir því máli svo það þurfi að klára á næstu dögum. Það eru engar lokadagsetningar, ekkert dead-line, einungis eitilhörð pólitísk markmið annars stjórnarflokksins.