Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sagði við setningu Búnaðarþings að Íslendingar mættu ekki verða upp á aðrar þjóðir komnir með matvælaframleiðslu. Það er auðvitað gott markmið í sjálfu sér og eitthvað sem flestar þjóðir huga að með ýmsum hætti.
En hvað þýðir það að vera ekki upp á aðrar þjóðir kominn með matvælaframleiðslu? Er verið að tala um matvælaöryggi, bæði magn og gæði? Er verið að tala um einhvers konar neyslustýringu og/eða frekari takmarkanir á innflutningi á matvælum? Ætlumst við samt til þess að aðrar þjóðir verði upp á okkur komnar með matvæli sem við flytjum út eins og t.d. fisk og fiskafurðir? Í hverju felast miklu sóknarfærin í landbúnaði sem sögð eru vera til staðar?
Staðreyndin er nefnilega sú að við höfum næstum tvöfaldað innflutning á matvælum á ekki löngum tíma. Innflutningur á nautakjöti fimmtánfaldaðist t.d. frá árinu 1999 til 2012 og innflutningur á öðru kjöti hefur einnig margfaldast. Þetta má m.a. sjá á vef Hagstofunnar. Þetta eru reyndar ekki stórar tölur í heildarneyslunni en magnið hefur aukist hratt á síðustu árum og mun væntanlega gera áfram.
Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig þróunin í innflutningi á ýmsum landbúnaðartengdum vörum, s.s. kjöti, mjólkurvörum, grænmeti og ávöxtum var á árabilinu 1999 til 2012.
Við þurfum auðvitað eins og allar þjóðir að treysta á innflutning á matvælum að talsverðu leyti. Við þurfum einnig að skilgreina hvað við eigum við með því að vera ekki upp á aðra komin í þessum efnum, hvernig við ætlum að gera það, hvort það er raunhæft markmið, hvað það muni kostar okkur (peningar og aðgengi að matvælum) og til hvers við ætlumst þá af öðrum þjóðum sem eru upp á okkur komnar.
Það er verðugt umræðuefni.