Smávegis um staðreyndir og bull

„Þess vegna tölum við um þetta kjörtímabil sem ár hinna töpuðu, glötuðu tækifæra. Þess vegna er hagvöxturinn ekki hér, vegna þess að valin var röng leið.“ (Bjarni Benediktsson, 14. Mars 2013)

„Tjónið af þessari ríkisstjórn er orðið meira en tjónið af hruninu, þau klikkuðu á því að taka á lánamálum heimilanna, fjárfesting fór í sögulegt lágmark, atvinnuleysi hefur aukist meira en það þurfti að gera - þegar allt kemur saman þá er það tjón meira en nam hruninu sjálfu." (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 28. apríl 2012.)

Svona töluðu formenn núverandi stjórnarflokka og fylgisveinar þeirra um efnahagslífið á Íslandi fyrir kosningar. Ekki til að leggja raunsætt mat á stöðuna eða sem jákvætt innlegg í samfélagið heldur í þeirra von að flokkarnir þeirra fengju góða kosningu. Þetta var niðurrifstal til þjóðar sem þurfti á öðru að halda. Hagsmunir heildarinnar voru látnir víkja fyrir sérhagsmunum flokkanna.
En þeir höfðu rangt fyrir sér. Það var engin innistaða fyrir gífuryrðunum þegar að var gáð. Það talar enginn svona lengur enda engin rök fyrir því nú frekar en þá.
Hagvöxtur á Íslandi er sá mesti frá árinu 2007 og  einn sá hæsti á Vesturlöndum. Fimm ár í röð hefur verið afgangur af viðskiptum Íslands við útlönd. Síðustu 10 árin þar á undan vorum við alltaf í skuld eins og kunnugt er. Það endaði illa.
Eftir því sem frá líður verður sú mynd æ skýrari sem sýnir ótrúlegan árangur vinstristjórnarinnar við að reisa landið upp úr Hruni langvarandi efnahagslegrar óstjórnar hægriflokkanna. Því verður ekki neitað með haldbærum rökum. Allir mælikvarðar vísa annað.
Þeir sem hafa áhuga á staðreyndum geta lesið sér til um þessi mál, m.a. í nýjum gögnum Hagstofu Íslands.
Hinir geta haldið áfram að bulla.