Fátt er nýtt undir sólinni

Í pistli á heimasíðu sinni segir formaður framsóknarflokksins að: “…annaðhvort verður mynduð ríkisstjórn um áherslur Framsóknar eða það verður mynduð ríkisstjórn gegn þeim.” Þetta endurtekur formaðurinn svo í viðtali við Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi oddvita framsóknarflokksins í Reykjavík, á Eyjunni í dag.

Innlendir hrægammar á fóðrum

Eitt af forgangsatriðum næsta kjörtímabils verður að afnema gjaldeyrishöftin sem sett voru á haustið 2008. Þetta er gríðarstórt verkefni sem þarf að nálgast með heildrænum hætti og þannig að fyrirtæki og heimili verði ekki fyrir tjóni. Ef óvarlega verður farið við afnám haftanna er mikil hætta á að gengi krónunnar falli hratt og mikið sem myndi leiða til óðaverðbólgu sem hefði gríðarleg, neikvæð áhrif fyrir heimili og fyrirtæki í landinu og þjóðarbúið í heild sinni.

Uppvakningarnir

Það er fátítt að forystufólk upplýsi opinberlega um stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar. Flestir vilja halda nokkrum möguleikum opnum og skoða málið í ljósi væntanlegra kosningaúrslita. Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður framsóknarflokksins, er ekki þannig stjórnmálamaður. Hann er óvenjuleg tegund framsóknarmanns að þessu leyti. Varaformaðurinn vill harðkjarna hægristjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar í anda þeirrar stjórnar sem Davíð og Halldór mynduðu vorið 1995. Samstarf þessara flokka varði þá í 12 ár með afleiðingum sem mun gæta á lífskjör almennings næstu áratugina. Ríkisstjórnin sem þessir tveir flokkar virðast nú þegar hafa myndað, nú viku fyrir kosningar, er sömu gerðar og Davíðs/Halldórsstjórnin á sínum tíma. Nýja ríkisstjórnin er í grunninn með sömu áherslur og stefnumál. Hún mun, eins og sú fyrri, lækka skatta á hátekjufólk og fyrirtæki og jafna byrðum Hrunsins niður launastigann. Hún mun ekki láta umhverfismál eða náttúruvernd þvælast fyrir sér í atvinnumálum.

Ein stór hægriblokk

Pólitísk átök standa oftar en ekki á milli tveggja blokka sem skilgreina sig ýmist til hægri eða vinstri, félagslega sinnaðra eða þeirra sem taka önnur sjónarmið framar sjónarmiðum heildarinnar. Pólitíska landslagið hér á landi er hins vegar að teiknast þannig upp að til er að verða ein sterk hægriblokk með 55-60% fylgi á móti  tættu fylgi fjölmargra flokka vinstra megin við miðjuna þar sem stærsti flokkurinn er með 12-14% fylgi og aðrir minna. Verði þetta niðurstaða kosninganna mun sá flokkur sem fór lengst til hægri standa uppi sem sigurvegari Hrunsins og gamli hægriflokkurinn kemur svo fast á hæla honum. Verði þetta niðurstaðan munu sjónarmið vinstriflokkanna hafa lítið sem ekkert vægi í íslenskum stjórnmálum næstu kjörtímabilin, jafnvel áratugi. Sjónarmið félagslegra leiða í heilbrigðis, velferðar- og menntakerfinu verða þá undir á kostnað einkavæðingar og sérhagsmuna. Sú viðhorfsbreyting sem orðið hefur í náttúruverndarmálum mun þá að engu verða á kostnað gamalla og úreldra sjónarmiða.

Stolnar fjaðrir

Þann 13. mars árið 2012 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um gjaldeyrismál sem líklega er ein mikilvægasta lagasetning frá Hruni. Þetta mál felur það í sér að allar eignir þrotabúa gömlu bankanna eru færðar undir gjaldeyrishöftin. Þar með sköpuðust forsendur til að semja við kröfuhafa þrotabúanna um hvernig þeir komast með kröfur sínar úr landinu. Það er því athyglisvert, í þessu ljósi, að stóru stjórnarandstöðuflokkarnir studdu ekki málið, lögðust annaðhvort gegn því eða tóku ekki afstöðu til málsins. Allir þingmenn sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn þessu mikilvæga máli. Bæði þáverandi varaformaður framsóknarflokksins og núverandi varaformaður hans sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Athyglisverðast er þó að formaður framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mætti ekki í atkvæðagreiðsluna, sér í lagi þegar það er haft í huga að hann hefur nú gert þetta sama mál að kosningamáli flokksins.

Ippon á safnaðarfundi í Garðabæ

Safnaðarfundur Garðabæjardeildar sjálfstæðisflokksins var sögulegur að mörgu leyti, sér í lagi fyrir formann flokksins, Bjarna Benediktsson. Í fyrsta lagi fyrir það snilldarbragð formannsins að opinbera fyrir þjóðinni þau svakalegu átök sem eiga sér stað innan flokksins og takast þannig á við andstæðinga sína fyrir opnum tjöldum. Í öðru lagi fyrir tímasetninguna, tveim dögum fyrir auglýstan og vel skipulagðan fund í heimabæ sínum, höfuðvígi sjálfstæðisflokksins þar sem uppgjörið skyldi fara fram. Í þriðja lagi fyrir að taka helsta andstæðing sinn á beinið í gær og þvinga hana til að lýsa yfir fullum og óskoruðum stuðningi við sig ella yrði hún að gera grein fyrir stöðu sinni frammi fyrir fullu íþróttahúsi af fylgismönnum formannsins í Garðabæ.

Ódýrar lausnir leysa ekki mikinn vanda

Skuldir einstaklinga og heimila hækkuðu vegna Hrunsins. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Efnahagsóreiða og afglapastjórnmál síðustu áratuga hafa því reynst okkur afar dýr. Umræðan í samfélaginu hefur verið með þeim hætti að allt það versta sem gerst hefur í fjármálum heimilanna hafi gerst frá og með vorinu 2009 þegar ný vinstristjórn tók við stjórnartaumunum í landinu. Fátt er fjarri sanni.

Línuritið hér til hliðar sem byggist á gögnum frá ríkisskattstjóra, sýnir að skuldir fara lækkandi, hvort sem um er að ræða skuldir vegna húsnæðis eða annars. Reyndar er það svo að skuldir vegna annars en húsnæðislána nema um 37% af heildarskuldum framteljenda. Frá árinu 2008, þegar skuldirnar náðu hámarki, hafa heildarskuldir framteljenda (á verðlagi ársins 2013) lækkað um 15,9% og húsnæðisskuldir  um 14,1%.

Þetta breytir ekki því að vandinn er mikill og afleiðingar Hrunsins munu hafa áhrif á heimilin í landinu um lengri tíma. Á því þurfa stjórnvöld að taka, hver sem þau eru hverju sinni. Það er hins vegar rétt að vara við því að fela þeim sem komu okkur í þennan mikla vanda að leysa hann með ódýrum skyndilausnum.

Skattahelvítið Ísland

Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert skattalækkanir að sínu aðalkosningamáli. Það hefur hann reyndar alltaf  gert fyrir allar kosningar alveg sama hvernig hefur árað í samfélaginu og burtséð frá afleiðingunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið sjálfum sér og sínum  trú um að búið sé að breyta Íslandi í einhvers konar skattahelvíti. Þeir líta á það sem sitt hlutverk að frelsa þjóðina undan skattaánauðinni sem vinstri menn hafa hneppt hana í.

Myndin hér til hliðar sýnir samanburð á sköttum á Íslandi og annarra landa. Ef sjálfstæðisflokkurinn fær einhverju ráðið munu skattar á Íslandi verða þeir lægstu á Vesturlöndum.

Þeir vilja að Ísland verði eins og hver önnur Tortóla.

Mál sem verður að upplýsa

Þá liggur það endanlega fyrir að lán Seðlabankans til Kaupþings haustið 2008 og afleiðingar þess er stærsta einstaka mál Hrunsins. Um það hef ég áður fjallað hér á síðunni auk þess sem  finna má athyglisverða pistla Sigrúnar Davíðsdóttur um þetta makalausa mál á vef RÚV, t.d. hér og þá ekki síður þennan hér.

Samanborið við önnur stór Hrunamál verður Kaupþingslánið okkur dýrara en Icesave auk þess sem við eigum sem betur fer fyrir því ljóta máli þó vissulega hefði verið betra að nota þá peninga í annað en klúður fjárglæframanna. Það kemur hins vegar í hlut okkar skattgreiðenda að borga fyrir Seðlabankamálið. Það eru engir aðrir til þess.

Ekki svo lítið ...

Hrunið á Íslandi er eitt stærsta fjármálahrun sem orðið hefur í heimssögunni. Fall Íslensku viðskiptabankanna er í hópi tíu stærstu gjaldþrota heims, þar af er fall Kaupþings þriðja stærsta gjaldþrot sögunnar. Því til viðbótar má bæta gjaldþroti Seðlabankans við þessi ósköp en það kostaði þjóðina hátt í 200 milljarða króna að gera bankann starfhæfan aftur. Fall Seðlabankans er stærsta einstaka mál Hrunsins í krónum og aurum talið. Á hverju ári greiðum við, skattgreiðendur í landinu, 6-8 milljarða í vexti af kostnaði við að reisa bankann við. Hér má lesa ágæta lýsingu og sundurgreiningu á kostnaðinum við Hrunið sem margir vilja að best sé gleymt og grafið.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS