Ódýrar lausnir leysa ekki mikinn vanda

Skuldir einstaklinga og heimila hækkuðu vegna Hrunsins. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Efnahagsóreiða og afglapastjórnmál síðustu áratuga hafa því reynst okkur afar dýr. Umræðan í samfélaginu hefur verið með þeim hætti að allt það versta sem gerst hefur í fjármálum heimilanna hafi gerst frá og með vorinu 2009 þegar ný vinstristjórn tók við stjórnartaumunum í landinu. Fátt er fjarri sanni.

Línuritið hér til hliðar sem byggist á gögnum frá ríkisskattstjóra, sýnir að skuldir fara lækkandi, hvort sem um er að ræða skuldir vegna húsnæðis eða annars. Reyndar er það svo að skuldir vegna annars en húsnæðislána nema um 37% af heildarskuldum framteljenda. Frá árinu 2008, þegar skuldirnar náðu hámarki, hafa heildarskuldir framteljenda (á verðlagi ársins 2013) lækkað um 15,9% og húsnæðisskuldir  um 14,1%.

Þetta breytir ekki því að vandinn er mikill og afleiðingar Hrunsins munu hafa áhrif á heimilin í landinu um lengri tíma. Á því þurfa stjórnvöld að taka, hver sem þau eru hverju sinni. Það er hins vegar rétt að vara við því að fela þeim sem komu okkur í þennan mikla vanda að leysa hann með ódýrum skyndilausnum.

Það er engin ódýr lausn til við þessum vanda.