Það tapa allir - (nema kannski einn)

Icesave er afsprengi einkavæðingar bankanna á sínum tíma og er fyrir löngu orðið að táknmynd þess versta sem Hrunið haustið 2008 leiddi af sér. Það dafnaði í skjóli ónýts regluverks fjármálakerfisins, tók út þroska í faðmi spilltra stjórnmála- og viðskiptamanna og naut velþóknunar á æðstu stöðum fram á lokadag. Margir líta á Icesave-málið líkt og kappleik milli stjórnmálamanna og bíða niðurstöðu dómsins á morgun með því hugarfari. Bíða þess að geta lýst yfir sigri. En það getur enginn unnið í þessu ömurlega máli. Það tapa allir, mest þó þjóðin sem hefur liðið fyrir málið jafnt á heimavelli sem á alþjóðavettvangi.

Mér segir þó svo hugur að æðardúnsbóndinn á Bessastöðum muni verða loddaraskapnum trúr og krýna sjálfan sig sigurvegara um hádegisbilið á morgun – sama hvernig „leikurinn“ fer.

Enda er honum málið skylt.

Börn og klám

Innanríkisráðherra hefur falið réttarfarsnefnd að vinna frumvarp til almennra hegningarlaga í þeim tilgangi að þrengja og skerpa skilgreiningu á klámi. Nefndinni er m.a. ætlað að taka mið af ákvæðum norskra hegningarlaga í þessu sambandi. Í núgildandi hegningarlögum er ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu klám, sem getur m.a. leitt til þess að erfitt getur verið að bregðast við brotum gegn lögunum að þessu leyti eða koma í veg fyrir  brot. Ráðuneytið mun einnig setja á laggirnar sérstakan starfshóp sem ætlað er að kortleggja úrræði  lögreglu vegna dreifingar á klámi á netinu. Starfshópurinn á sömuleiðis að gera tillögur að breytingum sér í lagi með það í huga að verja börn gegn klámi og ofbeldi því tengdu. Í þessum starfshópi munu m.a. sitja fulltrúar frá lögreglunni, ríkissaksóknara og Póst- og fjarskiptastofnun, auk þess sem hópnum verður gert að vinna í nánu samráði við fjarskiptafyrirtæki, fjölmiðlanefnd, réttarfarsnefnd og SAFT.

Kaupmáttur launa

Kaupmáttur launa segir til um verðmæti þeirra peninga sem maður hefur til ráðstöfunar – svona í grófum dráttum. Það er síðan mælt eftir kúnstarinnar reglum hvort verðmætið minnkar eða eykst frá einu tímabilinu til annars. Á línuritinu hér til hliðar sést hvað kaupmáttarhrapið í kjölfar Hrunsins varð gríðarlegt með miklum áhrifum á lífskjörs fólksins í landinu. Kaupmáttur launa fer nú vaxandi og er nú á svipuðu róli og undir lok árs 2008. Eins og sést á þessum gögnum tók kaupmátturinn nokkuð við sér í kjölfar kjarasamninga sem gerðir voru á vinnumarkaðinum sumarið 2011 (sést betur ef myndin er stækkuð). Þeir samningar hafa verið nokkuð gagnrýndir m.a. af hagfræðingi Seðlabankans sem segir þá hafa verið verðbólguhvetjandi. Árni Páll Árnason formannsefni Samfylkingarinnar gagnrýndi samningana sömuleiðis nokkuð duglega og taldi m.a. ekki hafa verið innistæðu fyrir þeim.

Þetta er ekki ein skýringin, félagi Karl

Karl Th. Birgisson, sá mikli sómadrengur og lífskúnster svarar vangaveltum mínum um hvað valdi miklu fylgi Bjartrar framtíðar í skoðanakönnunum. Sjálf segjast talsmenn flokksins vera að gera eitthvað vel sem þeir ætla að halda áfram að gera vel. Ég veit bara ekki hvað það er og hef ekki fengið nein svör við því. Það er svo sem engin meining í þessum pælingum mínum önnur en sú að velta fyrir mér hversvegna hlutirnir gerast eins og þeir virðast vera að gerast.

Karl segir að finna megi vísbendingu um þetta í ákvörðun Samfylkingarinnar og Besta flokksins í borgarstjórn að flytja skrifstofu borgarstjóra í nokkrar vikur í Breiðholtið og halda nokkra fundi borgarráðs þar sömuleiðis. Karl bendir reyndar réttilega á að Besti flokkurinn og Björt framtíð eru ekki eitt og hið sama þó finna megi skyldleika þarna á milli.

Loforð og veruleiki

Sjálfstæðismenn segjast ætla að lækka skatta komist þeir í færi ti þess. Það hafa þeir reyndar alltaf sagt fyrir allar kosningar og fengið einhver atkvæði út á það. Á myndinni hér til hliðar sést hinsvegar hvernig þau loforð hafa raungerst samkvæmt upplýsingum frá OECD. Þar kemur glögglega fram (rauða línan) að skattar á Íslandi sem hlutfall af þjóðarkökunni hækkuðu jafnt og þétt frá því sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórn efnahagsmála hér á landi í byrjun tíunda áratugarins og allt fram að Hruni. Skattar hækkuðu sem sagt á tímabilinu en lækkuðu ekki eins og reynt er að telja fólki í trú um. Í samanburði við önnur lönd hækkuðu skattar hér á landi langt umfram það sem annarsstaðar gerðist. Þetta eru staðreyndir sem ekki þarf að deila um.

Það sem gerðist á þessum tíma var að skattbyrði milli- og lágtekjuhópa jókst frá ári til árs á meðan létt var á hátekju- og fjármagnstekjuhópum. Þetta eru líka staðreyndir sem ekki verður deilt um.

Pólitísk taugaveiklun

Pólitísk taugaveiklun getur verið samfélaginu skeinuhætt. Hún  lýsir sér yfirleitt í því að stjórnmálamenn kikna undan skyndilegu álagi, fara á taugum og gera einhverja bölvaða vitleysu með ófyrirséðum og oftar en ekki alvarlegum afleiðingum.  Ein slík taugaveiklun er við það að ná hámarki þessa dagana. Það er ESB taugaveiklunin. Viðbrögð forystumanna Framsóknar- og sjálfstæðisflokksins við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægja á aðildarviðræðunum fram yfir kosningar eru vísbending um að þeir uppfylli ekki hæfisskilyrði til að veita landinu forystu. Þeir fóru á taugum, skripluðu á skötunni og misstu fótanna. Sama hefur gerst hjá nokkrum stjórnarliðum á báðum endum málsins. Þeir töpuðu áttum og kunnu ekki að bregðast við. Jafnvel þeir sem segjast ætla að innleiða nýja hugsun og nýtt vinnulag í stjórnmálin brotnuðu saman og hrukku í hefðbundinn stjórnarandstöðugír. Þeir féllu á fyrsta prófinu.

Einhvern veginn eru það svo alltaf þeir sömu sem halda kúlinu og hafa stjórn á atburðarásinni alveg sama á hverju gengur.

Smávægilegt rask á tilverunni má ekki verða til þess að stjórnmálamenn missi allt niður um sig.

Það verður að ætlast til meira af þeim en það.

Lélegasti stjórnarandstöðuflokkur lýðveldistímans?

Stjórnmálafræðingar og álitsgjafar um stjórnmál hafa spáð ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar stuttum líftíma allt frá kosningum. Heldur hefur þó dregið úr þeim spádómum að undanförnu enda kjörtímabilið brátt á enda. Þess í stað er því nú haldið fram að stjórnin hafi ekki komið neinu í verk sem heitið getur og stærstu málin enn eftir. Um þetta fjallaði ég m.a. hér á síðunni fyrir stuttu.

Í gær kom Alþingi saman eftir jólaleyfi. Um miðjan dag hafði þingið þegar samþykkt Rammaáætlun með góðum meirihluta, stjórnarflokkarnir sett ESB málið í tryggt ferli fram yfir kosningar og stjórnarandstaðan verið svipt vopnum sínu til að reka fleyg í raðir stjórnarliða.

Enda var það ráðalaus hópur stjórnarandstæðinga sem sat í þingsalnum í gærdag. Hópur fólks sem hafði enga hugmynd um hvaðan vindurinn stóð á þau og kunni engin svör við tíðindum dagsins og hefur þau ekki enn.

Bakaradrengurinn úr Garðabænum

Gerbakstur er vandasöm iðja eins og allir vita sem reynt hafa. Það þarf að huga að mörgum þáttum ef bakstur gerbrauða á að heppnast svo úr verði gómsætt brauð sem bráðnar í munni. Það er t.d. ekki sama hvers konar hveiti er notað eða hvernig því er blandað saman við hræruna jafnt og þétt allt þar til deigið er orðið eins og það á að vera. Hitastig vatnsblöndunnar sem gerið er leyst upp í er enn mikilvægari þáttur. Það má hvorki vera svo hátt að það drepi hreinlega gerið eða svo kalt að deigið lyfti sér svo hægt að brauðið verði beinlínis ónýtt. Sama á við um umhverfishitann sem deigið er látið lyfta sér í sem hvorki má vera of hár né of lágur, heldur bara einfaldlega réttur. Deigið verður líka að vera full hefað áður en það er mótað í það form af brauði sem því er ætlað að verða. Annars er hætta á að það hefist of hratt í heitum ofninum í litlum einingum, rifni svo á endanum og skítfalli. Fátt er eins ömurlegt eða ósexí og fallið gerbrauð og fátt vitnar eins um lélegan bakara og flatt og dautt gerbrauð.

Þetta er þó aðeins örfá dæmi um það sem þarf að hafa í huga við gerbakstur, sem er vandasöm iðja, eins og áður hefur komið fram.

Auðlegðarskattinn fyrir dóm - plís!

Hinn árlegi Skattadagur Deloitte var haldinn að Grand Hótel Reykjavík í morgun. Þar hélt Garðar Valdimarsson lögmaður erindi þar sem fram kom að hann telur meiri líkur en minni á því að auðlegðarskatturinn, sem lagður er á auðugasta fólkið í landinu, sé eignarupptaka og brot á stjórnarskránni. Það hefur svo sem verið nefnt áður, t.d. hér, hér og hér svo dæmi séu tekin.

Þetta er hinsvegar að verða óttalegt tuð sem aðeins er hægt að stoppa með því að á málið verði látið reyna fyrir dómstólum.

Af hverju drífur ekki einhver auðmaðurinn í því?

Rök í stað rökleysu

Hún er furðuleg kenningin sem haldið er á lofti um að fylgistap Vinstri grænna í könnunum megi rekja til aðildarumsóknar Íslands að ESB. Á hverju byggist sú kenning? Eru til einhverjar kannanir sem benda til þess að þannig sé?

Skoðum þetta aðeins.

Á heimasíðu Evrópuvaktarinnar er sagt frá könnun sem gerð var í mars 2011 um afstöðu kjósenda eftir flokkum til aðildar (ekki umsóknar) að ESB. Þar kemur fram að um 88% þeirra sem styðja Samfylkinguna vilja aðild Íslands að ESB, 20% framsóknarmanna, 30% sjálfstæðismanna og 40% vinstri-grænna. Athugið að þetta er hlutfall þeirra sem vilja aðild en ekki verið að spyrja um viðræðurnar sjálfar eða framhald þeirra.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS