Framsóknarflokkurinn er eini sigurvegari kosninganna, bætir við sig 10 þingmönnum og 9,6% á landsvísu. Samfylkingin er stærsti tapari kosninganna, tapar 11 þingmönnum frá kosningum (10 þegar tekið er tillit til þess að einn þingmaður yfirgaf flokkinn á kjörtímabilinu) og 16,9%. Björt framtíð er næst stærsti sigurvegari kosninganna, mætir til leiks með 6 þingmenn og 8,2% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti tapari kosninganna með næst lélegustu niðurstöðu flokksins frá upphafi eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu, með 26,7% og 19 þingmenn. Vinstri græn tapa helmingi þingmanna sinna frá kosningum en þegar tekið er tillit til þess að þrír þingmenn yfirgáfu flokkinn á kjörtímabilinu tapa Vinstri græn 4 þingmönnum, fá 10,9% og skila 7 þingmönnum inn í næsta kjörtímabil.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eru í sárum. Báðir hafa goldið afhroð, annar þeirra úr ríkisstjórn, hinn úr stjórnarandstöðu. Staða formanna þeirra beggja er veik, hvorugum tókst ætlunarverk sitt, hvorugur hefur flokk sinn heilan sér að baki.
Staða Bjarna er þó sterkari en staða Árna Páls sem er vægast sagt mjög snúin.