Safnaðarfundur Garðabæjardeildar sjálfstæðisflokksins var sögulegur að mörgu leyti, sér í lagi fyrir formann flokksins, Bjarna Benediktsson. Í fyrsta lagi fyrir það snilldarbragð formannsins að opinbera fyrir þjóðinni þau svakalegu átök sem eiga sér stað innan flokksins og takast þannig á við andstæðinga sína fyrir opnum tjöldum. Í öðru lagi fyrir tímasetninguna, tveim dögum fyrir auglýstan og vel skipulagðan fund í heimabæ sínum, höfuðvígi sjálfstæðisflokksins þar sem uppgjörið skyldi fara fram. Í þriðja lagi fyrir að taka helsta andstæðing sinn á beinið í gær og þvinga hana til að lýsa yfir fullum og óskoruðum stuðningi við sig ella yrði hún að gera grein fyrir stöðu sinni frammi fyrir fullu íþróttahúsi af fylgismönnum formannsins í Garðabæ. Í fjórða lagi fyrir að hafa náð að nýta sér þröngu stöðu til að afla sér samúðar innan flokks sem utan, jafnvel svo að fólk virðist jafnvel um stund tilbúið til að veita honum syndaaflausn fyrir pólitísk strákapör fortíðarinnar og dómgreindarbrest. Í fimmta lagi fyrir að hafa jafnað svo um sína helstu andstæðinga að nú ógnar honum enginn og hann því jafn öruggur um formannssæti sitt og Alex Ferguson er um framkvæmdastjórastöðu sína hjá Manchester United. Í sjötta lagi markaði safnaðarfundurinn upphaf að endalokum á pólitískum framgangi fyrsta varaformanns flokksins sem á sér nú ekki viðreisnar von innan flokksins. Hennar tími leið áður en hann kom. Í sjöunda lagi hefur Bjarna loksins tekist að hrista morgunblaðsóværuna af sér og mun þess nú ekki langt að bíða að skipt verði um ritstjóra á því blaði.
Úr þessu mun engu breyta hvernig kosningaúrslitin verða fyrir sjálfstæðisflokkinn. Bjarni mun alltaf standa uppi sem sigurvegari. Honum verður þakkað að ekki fór verr. Andstæðingar hans eru þegar sekir um fylgistapið.
Lokauppgjörið mun svo fara fram að afloknum kosningum, þegar sjálfstæðisflokkurinn með Bjarna í forystu verður sestur í ríkisstjórn með framsókn. Það uppgjör verður á forsendum Bjarna Benediktssonar.
Svona eiga sýslumenn að vera.