Ein stór hægriblokk

Pólitísk átök standa oftar en ekki á milli tveggja blokka sem skilgreina sig ýmist til hægri eða vinstri, félagslega sinnaðra eða þeirra sem taka önnur sjónarmið framar sjónarmiðum heildarinnar. Pólitíska landslagið hér á landi er hins vegar að teiknast þannig upp að til er að verða ein sterk hægriblokk með 55-60% fylgi á móti  tættu fylgi fjölmargra flokka vinstra megin við miðjuna þar sem stærsti flokkurinn er með 12-14% fylgi og aðrir minna. Verði þetta niðurstaða kosninganna mun sá flokkur sem fór lengst til hægri standa uppi sem sigurvegari Hrunsins og gamli hægriflokkurinn kemur svo fast á hæla honum. Verði þetta niðurstaðan munu sjónarmið vinstriflokkanna hafa lítið sem ekkert vægi í íslenskum stjórnmálum næstu kjörtímabilin, jafnvel áratugi. Sjónarmið félagslegra leiða í heilbrigðis, velferðar- og menntakerfinu verða þá undir á kostnað einkavæðingar og sérhagsmuna. Sú viðhorfsbreyting sem orðið hefur í náttúruverndarmálum mun þá að engu verða á kostnað gamalla og úreldra sjónarmiða. Ný atvinnustefna sem vakið hefur til lífsins nýjar greinar á sviðum tækni, hugverka og skapandi greina mun þá aftur fá minna vægi á kostnað gamaldags atvinnustarfsemi sem kosta miklar fórnir.

Jafn ótrúlegt og það nú hljómar, lítur svo út fyrir að hægriflokkarnir munu komast aftur til valda með meiri stuðningi en nokkru sinni áður á einu kjörtímabili frá stærsta efnahagshruni sem þjóðin hefur orðið fyrir. Fjórum árum frá því að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis opinberaði gríðarlega spillingu í stjórnmála- og viðskiptalífinu munu þeir sem þar léku aðalhlutverkin koma sterkari en nokkru sinni til leiks eftir kosningar.

Þetta er sú mynd sem blasir við í íslenskum stjórnmálum í dag.