Fátt er nýtt undir sólinni

Í pistli á heimasíðu sinni segir formaður framsóknarflokksins að: “…annaðhvort verður mynduð ríkisstjórn um áherslur Framsóknar eða það verður mynduð ríkisstjórn gegn þeim.” Þetta endurtekur formaðurinn svo í viðtali við Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi oddvita framsóknarflokksins í Reykjavík, á Eyjunni í dag.

Það er ekkert nýtt í sögunni að stjórnmálamenn líti á sjálfa sig líkt og æðri verur sem jaðri við guðlast að ganga gegn. Þekktast dæmið á síðari tímum er án vafa þegar George nokkur Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, barði viljugar þjóðir til liðs við sig í stríðsreksturinn í Írak. “Annaðhvort eruð þið með okkur eða með óvininum,” sagði Bush sem iðrast einskis og er þess fullviss að sagan muni fara mjúkum höndum um sig. Hótanir Bush höfðu talsverð áhrif, m.a. hér á landi og  ollu því að formenn framsóknar- og sjálfstæðisflokksins stilltu þjóðinni upp við hliðina á Bush gegn óvini sem hún átti ekki áður og hefur aldrei átt.

Röksemdafærsla af þessu tagi bendir til þess að málstaðurinn sé vondur og erfitt að verja hann eins og komið hefur í ljós hjá Bush karlinum. Nú er svo komið að hugmyndafræðingar framsóknarflokksins geta ekki lengur varið eða rökstutt tillögur flokksins í efnahagsmálum. Þeir tala nú um að „leiðrétta“ megi skuldir almennings á 20 árum eða svo (sjá svar við spurningu 2) sem er býsna langur tími og ekki í þeim anda sem rætt hefur verið um hingað til. Raunleiðréttingin er,þegar tekið er tillit til þessa langa tíma og verðlagsáhrifa, líklega á bilinu 10-11% sem er heldur langt frá því sem lofað hefur verið. Með öðrum orðum: Framsóknarmenn viðurkenna loksins að geta ekki staðið við gefin loforð um niðurfellingu skulda.

Hvað gera menn þá? Jú, draga aðra til ábyrgðar á eigin mistökum eins og Bush gerði á sínum tíma. „Annaðhvort eruð þið með okkur eða með óvininum – Annaðhvort eruð þið með framsókn eða á móti heimilunum.“

Er ekki sagt að sagan endurtaki sig alltaf í einhverri mynd og fátt sé nýtt undir sólinni?