Uppvakningarnir

Það er fátítt að forystufólk upplýsi opinberlega um stjórnarmyndunarviðræður fyrir kosningar. Flestir vilja halda nokkrum möguleikum opnum og skoða málið í ljósi væntanlegra kosningaúrslita. Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður framsóknarflokksins, er ekki þannig stjórnmálamaður. Hann er óvenjuleg tegund framsóknarmanns að þessu leyti. Varaformaðurinn vill harðkjarna hægristjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar í anda þeirrar stjórnar sem Davíð og Halldór mynduðu vorið 1995. Samstarf þessara flokka varði þá í 12 ár með afleiðingum sem mun gæta á lífskjör almennings næstu áratugina. Ríkisstjórnin sem þessir tveir flokkar virðast nú þegar hafa myndað, nú viku fyrir kosningar, er sömu gerðar og Davíðs/Halldórsstjórnin á sínum tíma. Nýja ríkisstjórnin er í grunninn með sömu áherslur og stefnumál. Hún mun, eins og sú fyrri, lækka skatta á hátekjufólk og fyrirtæki og jafna byrðum Hrunsins niður launastigann. Hún mun ekki láta umhverfismál eða náttúruvernd þvælast fyrir sér í atvinnumálum. Þetta verður ríkisstjórn sem brettir upp ermar, einhendir sér hugsunarlaust í verkin, setur undir sig hausinn, lætur ekki smáatriði vefjast fyrir sér, hunsar regluverkið, dregur úr eftirlitinu og lætur tannhjól gamalla atvinnuhátta snúast aftur af fullum þunga. Þetta verður ríkisstjórn sem hættir stuðningi við tækni- og hugverkageirann, skapandi greinar og listir og menningu. Því hafa þessir flokkar þegar lýst yfir með einbeittri andstöðu sinni við fjárfestingaráætlun stjórnvalda sem þeir sögðu vera gæluverkefni vinstrimanna. Þetta verður ríkisstjórnin sem dregur úr vægi opinbera velferðarkerfisins, heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins, rétt eins og þeir gerðu undir stjórn Davíðs og Halldórs. Þetta verður ríkisstjórn sem mun aftur hætta að fjármagna kaup á tækjum á opinberum sjúkrahúsum eins og gert var í fyrri stjórn þessara flokka. Þetta verður ríkisstjórn sem mun draga úr fjárframlögum til Landspítalans rétt eins og gert var fyrir Hrun.

Draumaríkisstjórn framsóknarmanna verður hægristjórn eins og þær gerast verstar.

Uppvakningur Davíðs/Halldórsstjórnarinnar.