Til að það sé á hreinu ...

Kosningaloforð framsóknarflokksins var skýrt og afdráttarlaust: „Til að það sé á hreinu kemur leiðrétting skulda fram strax …“, sagði SDG, formaður flokksins, nokkrum dögum fyrir kosningar. Formaður sjálfstæðisflokksins gagnrýndi yfirboð framsóknarmanna harðlega og sagði þau vera óraunhæf loforð upp á mörg hundruð milljarða sem ekki væri hægt að standa við. Samt sem áður fór það þannig að þessir tveir flokkar mynduðu ríkisstjórn um kosningaloforð framsóknar. Formaður framsóknar, sem situr í skjóli sjálfstæðisflokksins í forsætisráðuneytinu, heldur svo áfram yfirboðunum hvenær sem hann kemst í færi til þess. En það gerir hann án stuðnings samstarfsflokksins. Ekki lengur.

Tveir fingur ...

SDG forsætisráðherra upplýsti þing og þjóð um framkvæmd róttækustu aðgerða í þágu skuldugra heimila sem gripið hefur verið til í veraldarsögunni.
Um það má hafa mörg orð.
En þess þarf ekki.

Geggjun

Vigdís Hauksdóttir er einn áhrifamesti þingmaður stjórnarflokkanna í dag, ef ekki sá áhrifamesti. Í dag réttlætir hún fjöldauppsagnir hjá opinberum starfsmönnum vegna gruns um að þeir hafi stutt vinstri stjórnina og séu líklegir vinstrimenn.
Áður hafði Vigdís hótað niðurskurði hjá fréttastofu RÚV af svipaðri ástæðu. Það var staðið við þá hótun.

Brengluð heimsmynd Pírata

Í umræðu um veiðigjöld á Alþingi sl. sumar sagði Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata, eftirfarandi: „Ég hef oft lent í því þegar ég er að ræða málefni er varða netið og allt það sem að þar fer fram, að eina leiðin – fyrst þegar ég var að tala um þetta og var að byrja að vinna á netinu hérna í gamla daga 1995, fyrst íslenskra kvenna …“
Í dag sagði annar þingmaður Pírata í sjónvarpsþætti eftirfarandi: „Við sem erum í tölvubransanum og netbransanum við vitum þetta, við skiljum þetta, vegna þess að við vinnum við þetta, við bjuggum til internetið, við vitum hvernig það virkar …“
Heimsmynd þingmanna Pírata er verulega brengluð.

Ósannindi kaffærð með staðreyndum

Formenn stjórnarflokkanna héldu því fram í sumar að afkoma ríkisins væri miklu mun verri en gert hefði verið ráð fyrir. Reyndar svo að þeir notuðu það sem afsökun fyrir auknum niðurskurði, m.a. í heilbrigðis- og menntamálum. Þvert á fullyrðingar þeirra er nú hins vegar komið í ljós að afkoma ríkisins á fyrri helmingi ársins er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Gjöld ríkissjóðs voru lægri en búist var við og tekjurnar hærri.

Við erum betri en þið!

Heiða Kristín Helgadóttir skrifar að mörgu leyti ágæta grein í Kjarna vikunnar. Í henni segir hún frá aðdraganda að stofnun Besta flokksins, stemningunni, kraftinum og gleðinni sem fylgir því að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Þetta gerir Heiða ágætlega eins og flestir sem staðið hafa í þeim sporum geta líklega vitnað um.
En yfirbragð greinarinnar er vont, sér í lagi þó niðurlag hennar. Það er uppfullt af stærilæti, hroka, drýldni og sjálfsupphafningu lítilla karla af báðum kynjum sem telja sig öðrum fremri og betri á öllum sviðum, bara vegna þess hverjir þeir eru og hvaðan þeir koma. Besta flokknum og hans fólki er þannig lýst sem andstæðum okkar hinna, egóistanna sem þrífumst í gróðrarstíu stjórnmálanna og getum hvorki sett okkur í annarra spor  né fundið til samkenndar með öðru fólki.

Spilling og pukur

Ég sá á vef Alþingis að þrír þingmenn sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum. Í greinargerð frumvarpsins segir m.a.: „Markmið frumvarpsins er ekki aðeins að tryggja betri meðferð opinbers fjár og draga úr sóun heldur ekki síður að vinna gegn hvers konar spillingu sem fær aðeins þrifist þegar upplýsingum er haldið leyndum eða aðgangur almennings að upplýsingum er torveldaður.“
Ég skellti upp úr við lesturinn. Í ljósi sögunnar, ekki síst sögu sjálfstæðisflokksins, er þetta líka alveg drepfyndið.

Framsókn vill fella Íbúðalánasjóð

Formaður fjárlaganefndar lýsir þeirri skoðun sinni í viðtali við Bloomberg að ekki sé ríkisábyrgð á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs. Formaðurinn hefur boðað fjármálaráðherra, velferðarráðherra og FME til fundar við fjárlaganefnd til að ræða málið. Þetta gæti orðið athyglisverður fundur. Þá mun væntanlega koma í ljós hvort ríkisstjórnin hægrimanna ætlar að setja sjóðinn á hausinn með tilheyrandi afleiðingum, eins og formaður fjárlaganefndar telur að eigi að gera, eða hvort ríkissjóður muni áfram standa á bak við Íbúðalánasjóð og lántakendur íbúðalána eins og verið hefur til þessa dags.
Formaður fjárlaganefndar segir í viðtalinu við Bloomberg að fundurinn verði haldinn eins fljótt og verða megi.

Takmarkalaus heift

Ríkisstjórn Íslands vill frekar efla samstarf og samvinnu við Kína en þjóðir Evrópu. Á þessum heimum er þó talsverður munur. Íbúar Evrópu búa t.d. við lýðræði og mannréttindi, kjósa reglulegar til þings, velja sér nýja leiðtoga og hafa áhrif á samfélag sitt með margsvíslegum hætti. Íslendingar eigi mikil samskipti við þjóðir Evrópu, bæði viðskiptaleg og menningarleg. Kína er hvorki lýðræðis- né réttarríki í þeirri mynd sem við viljum kenna okkur við. Mannréttindi eru þar fótum troðin og fólk þar beitt órétti sem við munum vonandi aldrei taka okkur til fyrirmyndar. Samskipti okkar við Kína eru afar lítil á mælikvarða beggja þjóða.

Sunnudagsmorgunn í Reykjavík

Í kjölfar Hrunsins var mikil og frjó umræða í samfélaginu um stöðu þess, fortíð og framtíð. Fjölmiðlar, sem flestir brugðust í aðdraganda Hrunsins, skiptu miklu máli í þessari umræðu, tóku hlutverk sitt alvarlegar en áður og gerðu margt gott. Stjórnvöldum (þeim sem tóku við Hruninu) var veitt stífara aðhald en áður hafði þekkst og hefði átt að gera löngu fyrr.
Nú lítur svo út fyrir að allt sé að fara í sama gamla farið. RÚV býður nú upp á huggulegan morgunþátt í sjónvarpinu þar sem á að ræða um samfélagsmálin á „uppbyggilegum og jákvæðum nótum.“ Svo uppbyggilegum reyndar að í þættinum var rætt við „unga háskólakennara sem eru með nýjar og skemmtilegar kenningar um hið svokallaða Hrun“ – eins og þáttastjórnandinn kallaði það.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS