Formaður fjárlaganefndar lýsir þeirri skoðun sinni í viðtali við Bloomberg að ekki sé ríkisábyrgð á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs. Formaðurinn hefur boðað fjármálaráðherra, velferðarráðherra og FME til fundar við fjárlaganefnd til að ræða málið. Þetta gæti orðið athyglisverður fundur. Þá mun væntanlega koma í ljós hvort ríkisstjórnin hægrimanna ætlar að setja sjóðinn á hausinn með tilheyrandi afleiðingum, eins og formaður fjárlaganefndar telur að eigi að gera, eða hvort ríkissjóður muni áfram standa á bak við Íbúðalánasjóð og lántakendur íbúðalána eins og verið hefur til þessa dags.
Formaður fjárlaganefndar segir í viðtalinu við Bloomberg að fundurinn verði haldinn eins fljótt og verða megi.
Það hlýtur að vera eðlileg krafa þeirra sem eiga í viðskiptum við Íbúðalánasjóð að fundurinn verði öllum opinn og sendur út á netinu.
Minna má það nú ekki vera miðað við það sem undir er.