Tveir fyrir einn í Héraðsdómi Reykjavíkur

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um lögmæti auðlegðarskattsins er athyglisverður að mörgu leyti. Ef allt væri með felldu ætti hann að hafa umtalsverð pólitísk áhrif. Dómurinn hafnar öllum kröfum auðmannsins, sem reyndi að hnekkja lögunum: aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu. Auðmaðurinn hafði með öðrum orðum ekkert til síns máls að mati dómsins. Það er því hafið yfir allan vafa af hálfu Héraðsdóms Reykjavíkur að Alþingi var og er heimilt að leggja á auðlegðarskatt eins og gert hefur verið.

Ekki tilefni hátíðarhalda

Nýi tíuþúsund króna seðillinn sem kynntur var í dag er helmingur af verðgildi 500 krónu seðilsins sem gefinn var út í ársbyrjun 1981. Útgáfa nýja seðilsins í dag er enn ein birtingarmynd þeirra óstjórnar sem ríkt hefur í efnahagsmálum hér á landi. Seðillinn endurspeglar verðbólgu og rýrnun verðmæta, kaupmáttar og lífskjara.
Fram til þessa hefur myndskreyting á íslenskum peningum vísað til verðmætasköpunar, t.d. fiska eða landbúnaðar. Tíuþúsund króna seðillinn er hins vegar tileinkaður Jónasi Hallgrímssyni, skáldi og vísindamanni. Í útgáfu seðilsins felst því ákveðin viðurkenning á verðmætasköpun lista og vísinda til jafns við annað.

Keisarinn er á sprellaranum

Það er ljóst að verulegir brestir eru komnir í stjórnarsamstarf hægriflokkanna. Formaður sjálfstæðisflokksins virðist nota þau tækifæri sem gefast til að koma sér í skjól frá stóra loforði framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn hefur enn ekki getað staðið við nein loforða sinna, hvorki stór né smá, á meðan sjálfstæðisflokkurinn sinnir sínum umbjóðendum með skattaniðurfellingum og veiðigjaldalækkunum á bæði borð. Það virðist einnig hafa komið formanni sjálfstæðisflokksins jafn mikið á óvart og þjóðinni allri að forsætisráðherra hafi svo á dögunum skutlað sér fyrirvaralaust í frí á miðri vertíð.
Pirringurinn milli formannanna tveggja er að verða allt að því áþreifanlegur.

Hvað ef ...?

Þrettán þingmenn sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu á Alþingi um að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd til að rannsaka viðbrögð stjórnvalda við Icesave-málinu. Af því tilefni skrifar Elín Hirst, ein þrettánmenninganna, pistil þar sem hún segist ekki vilja að Alþingi sæki menn til saka ef rannsóknin gefur tilefni til þess. Þetta er undarleg afstaða þingmanns sem vill láta rannsaka málið til enda. Hvað ef niðurstaða rannsóknarinnar verður sú að fyrrverandi fjármálaráðherra hafi gerst brotlegur við landslög vegna málsins? Eða þáverandi Seðlabankastjóri hafi skaðað hagsmuni Íslands með framferði sínu? Eða þáverandi forsætisráðherra hafi ekki rækt skyldur sínar við að leysa málið? Eða þáverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu ...?

Rannsóknarnefndir Alþingis

Forseti Alþingis segir ekki boðlegt að Alþingi skipi rannsóknarnefndir sem kosti mikla fjármuni um óskýr verkefni. Það er margt til í þessu.
Fjárlaganefnd fjallaði talsvert um þessi mál á síðasta kjörtímabili og ræddi þau við formenn rannsóknarnefnda og yfirstjórn þingsins. Enda ekki vanþörf á. Í kjölfar þeirrar umræðu sendi ég sem formaður fjárlaganefndar forseta Alþingis minnisblað þar sem fram kemur að þær áætlanir sem gerðar voru um kostnað við rannsóknir á vegum Alþingis hafi alls ekki verið fullnægjandi og eftirliti þingsins með þeim sömuleiðis verið verulega ábótavant. Það er Alþingis að ákveða hvort rannsóknarnefndir eru skipaðar og það er þingsins að ákveða fjármuni til þess. Það leiðir af sjálfu sér að um leið og þingið ákveður að stofna til útgjalda verður það að standa við þá ákvörðun eða afturkalla ákvörðun sína. Samþykkt rannsóknar er því um leið ákvörðun um útgjöld til hennar.

Framsóknarmenn einkavæða Íbúðalánasjóð

Jafn mikil leynd og oftast nær hvílir yfir pólitískum störfum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þá er hann ófeiminn að opinbera pólitísk markmið sín og Flokksins. Og skammast sín ekkert fyrir það. Í fréttum RÚV í gær lýsti hann því yfir að stefnt væri að því að leggja Íbúðalánasjóð niður og sameina hann Landsbankanum. Eins og allir vita stefnir Flokkurinn svo að því að selja Landsbankann – aftur þrátt fyrir reynsluna. Í stuttu máli er þá stefnt að því að einkavæða Íbúðalánasjóð í gegnum einkavæðingu Landsbankans.

Kjarni málsins

Kjarninn er líklega það besta sem gerst hefur í fjölmiðlun hér á landi svo lengi sem ég man. Hann er rammpólitískur, úr öllum áttum, faglegur á allar hliðar og við hann starfar afbragðshæft starfsfólk sem rúmast illa innan þröngra veggja annarra fjölmiðla í einkaeigu. Kjarninn er á pari við RÚV þó um leið sé himinn og haf þar á milli.
Hér er hluti leiðara Kjarnans í dag:

Við borgum ...

Alþingi ákvað að setja 33 milljarða króna í Íbúðalánasjóð haustið 2010. Það hefur alltaf legið fyrir að þeir peningar verða ekki endurheimtir, frekar en annað sem í sjóðinn hefur farið frá Hruni. Það er rétt mat hjá forstjóra FME að Íbúðalánasjóður mun ekki geta unnið upp tapið sem á honum varð. Það er sömuleiðis ekki fjarri lagi hjá forstjóranum að ríkissjóður verði að leggja Íbúðalánasjóði til um 100 milljarða króna til að bjarga því sem bjargað verður. Hundrað milljarðar eru um fimmtungur af árlegum skatttekjum ríkisins. Við erum ríkið.

Brauðmolakenning framsóknar

Í stuttu máli snýst kenningin um brauðmolahagkerfið um að mylsnurnar sem hugsanlega hrökkva af borðum þeirra allra ríkustu nægi til að búa til sanngjarnt og réttlátt velferðarsamfélag þar sem allir una glaðir við sitt. Eyðsla og umsvif hinna ríku verði samfélaginu öllu til góðs frekar en eðlileg skattlagning. Þetta er sú hagfræðikenning sem hægrimenn hafa lengst af fylgt, hér á landi undir forystu sjálfstæðisflokksins. Hún varð til þess að fyrir nokkrum árum var ójöfnuður á Íslandi meiri en nokkru sinni áður og meiri en þekkist í samanburðarlöndum okkar. Skattar á tekjuháa, fjármagnstekjur og fyrirtæki voru á þeim tíma hvergi lægri en á Íslandi. Í kjölfar reynslunnar og afleiðinganna héldu margir að kenningin um brauðmolahagkerfið hefði lent á ruslahaug sögunnar haustið 2008.

Framsóknarmenn í NV-kjördæmi snúast gegn ríkisstjórninni

Í ályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í NV-kjördæmi er lagst gegn öllum helstu áformum ríkisstjórnarinnar eins og þau birtast í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Kjördæmisráðið ályktar m.a. gegn eftirfarandi:

  • Einkavæðingu vegaframkvæmda
  • Niðurskurði í framhalds- og háskólum
  • Niðurskurði á greiðslum til jöfnunar á húshitun
  • Lækkun skatta
  • Niðurskurði á framlögum til nýsköpunar og skapandi greina
  • Að aftur verði snúið til gömlu atvinnustefnunnar
  • Að virkjað verði á kostnað náttúrunnar

Það hefði líklega verið hreinlegra og sársaukaminna fyrir framsóknarmenn í NV-kjördæmi að segja skilið við framsóknarflokkinn en tæta stefnu hans svona niður.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS