Eitt föðurland. Einn foringi.

Stefnuræðu SDG má þjappa saman í eftirfarandi:
Eitt föðurland.
Einn foringi.

Það hefur heyrst áður.
 

 

Gistináttaskattur á sjúklinga

Ólíkt viðskiptavinum ferðaþjónustunnar sem nú er sleppt við eðlilega og sanngjarna skattheimtu, gista sjúklingar ekki á sjúkrahúsum af fúsum og frjálsum vilja. Það gera þeir sökum veikinda sinna og vegna þess að þeir þurfa að vera undir læknishendi. Þetta eru því kjöraðstæður til skattlagningar að mati silfurskeiðunganna. Það verður aðeins undan honum komist með lækningu eða dauða.
Ríkisstjórn hægrimanna leggur því til að tekin verði upp sérstakur gistináttaskattur á sjúklinga.

Hrun reunion í Háskólanum

Mánudaginn 7. október mun Háskóli Íslands standa fyrir samkomu Hruninu til dýrðar. Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson verður þar að sjálfsögðu í aðalhlutverki og honum til halds og trausts verða m.a. þau Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur (sjá hér) sem er öllum hnútum kunnug í myrkrakompum Valhallar og Dr. Eamonn Butler frá Adam Smith stofnuninni í London (sjá hér).
Rúsínan í pylsuendanum verður svo uppvakningarsamkoma að kvöldi sama dags þar sem (Dr.?) Davíð Oddsson mun rifja Hrunið upp fyrir þá sem hafa gleymt því eða sjá það röngu ljósi.
Hver hefði trúað þessu?

Besta ríkisstjórn lýðveldissögunnar

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar urðu á mörg mistök á síðasta kjörtímabili. En þau voru öll minniháttar og höfðu ekki merkjanleg áhrif á uppbyggingu samfélagsins úr rústum Hrunsins. Á kjörtímabilinu tókst að koma í veg fyrir stórkostlegt atvinnuleysi eins og spáð var að yrði. Verðbólga náðist  úr 20% niður í 3,3% og vextir fóru niður um 2/3 af því sem þeir voru árið 2009. Skuldir heimila sem náðu hæstu hæðum í árslok 2008 fóru á par við það sem þær voru fyrir Hrun. Ríkið greiddi um þriðjung vaxtakostnaðar heimilisskulda og bauð upp á ýmis úrræði fyrir þau sem voru í erfiðleikum. Hagvöxtur varð meiri hér á landi en í nokkru öður landi. Heilbrigðiskerfið, illa leikið eftir óstjórn góðærisáranna, hélt þrátt fyrir allt velli og sameiginleg framtíðarsýn stjórnvalda og stjórnenda og starfsfólks Landspítalans var skýr.

Hvað sem það kostar ...

Á síðasta kjörtímabili var allur annar rekstur ríkisins látinn taka á sig helmingi meiri byrðar af Hruninu á móti heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Á yfirstandandi ári var í fyrsta sinn frá Hruni ekki dregið úr útgjöldum til Landspítalans, heldur þvert á móti var bætt í.

Vitleysingsgangur.

Forsætisráðherra Íslands kynnti erlendum fjárfestum efnahagsstefnu ríkisstjórnar sinnar og framtíðarsýn í útlöndum á dögunum. Eftir þá kynningu sagðist hann óska þess að þeir kæmu með peningana sína til að fjárfesta á Íslandi.
Þeir hlógu að honum.

Ímynduð ofbirta

Pétur Blöndal, þingmaður sjálfstæðisflokksins, er skemmtilegur maður. Hann hefur rekist illa í flokki sínum sem hefur í staðinn komið í veg fyrir frekari framgang Péturs í stjórnmálum. Flokkurinn hefur aldrei falið Pétri þá ábyrgð sem lesa má úr prófkjörum að kjósendur hans hafi viljað fela honum.
En hvað um það.
Nú brenndi félagi Pétur af úr sannkölluðu dauðafæri. Hann lýsir dómi Hæstaréttar um uppgjör við þrotabú gömlu bankanna (sem hann og Flokkurinn einkavinavæddu) sem einum bjartasta degi Íslandssögunnar. Áður hafði hann sagt eitthvað álíka um Icesave-dóminn fyrr á árinu.

Enn er bullað og ruglað ...

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og einn meðlimur dauðasveitar stjórnarflokkanna, sagði víst í útvarpsviðtali að aftökulistinn þeirra væri orðinn langur. Meðal þess sem á að taka á er ferðakostnaður Alþingis til útlanda og fleira því tengdu.

Tímastjórnun

Ítalski kennarinn sagðist vera mjög strangur gagnvart mætingu í tíma hjá sér. „Tímarnir hjá mér byrja á slaginu. Ég bíð ekki lengur en 5 mínútur eftir mönnum. Í mesta lagi 10 mínútur. En þá byrja ég líka þó einhvern vanti. Nema eitthvað komi upp á.“
Við sættumst á það.

Kóngur einn dag ...

Í gær fékk ég fleiri afmæliskveðjur en nokkru sinni áður. Þökk sé feisbúkk. Ég hafði það á tilfinningunni að ég hefði ekki átt jafn marga vini síðan í tíu ára afmælinu mínu. Það var reyndar eftirminnilegt afmæli fyrst það er nefnt. Öllum strákunum í götunni og þrem næstu götum var boðið. Þeir mættu allir og sumir með vini sína með sér. Það varð til þess að pylsurnar sem boðið var upp á dugðu ekki handa öllum. Einhverjir fóru en flestir létu sig hafa það. Mamma hafði hins vegar að venju bakað meira en nóg handa öllum og mömmunum hinna strákanna líka sem komu allar í kaffi, sumar með dætur sínar. Mest þó til að sinna öryggisgæslu. Eftir hina formlegu veislu var skipt í lið í allskonar leiki sem ég man ekki lengur hverjir voru. Líklega var þó farið í yfir, fótbolta og reiptog. Það var alla vega algengt þá.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS