Við erum betri en þið!

Heiða Kristín Helgadóttir skrifar að mörgu leyti ágæta grein í Kjarna vikunnar. Í henni segir hún frá aðdraganda að stofnun Besta flokksins, stemningunni, kraftinum og gleðinni sem fylgir því að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Þetta gerir Heiða ágætlega eins og flestir sem staðið hafa í þeim sporum geta líklega vitnað um.
En yfirbragð greinarinnar er vont, sér í lagi þó niðurlag hennar. Það er uppfullt af stærilæti, hroka, drýldni og sjálfsupphafningu lítilla karla af báðum kynjum sem telja sig öðrum fremri og betri á öllum sviðum, bara vegna þess hverjir þeir eru og hvaðan þeir koma. Besta flokknum og hans fólki er þannig lýst sem andstæðum okkar hinna, egóistanna sem þrífumst í gróðrarstíu stjórnmálanna og getum hvorki sett okkur í annarra spor  né fundið til samkenndar með öðru fólki.
Einhvers konar „Við-erum-betri-en-þið“ skilaboð - úr óvæntri átt.