Sunnudagsmorgunn í Reykjavík

Í kjölfar Hrunsins var mikil og frjó umræða í samfélaginu um stöðu þess, fortíð og framtíð. Fjölmiðlar, sem flestir brugðust í aðdraganda Hrunsins, skiptu miklu máli í þessari umræðu, tóku hlutverk sitt alvarlegar en áður og gerðu margt gott. Stjórnvöldum (þeim sem tóku við Hruninu) var veitt stífara aðhald en áður hafði þekkst og hefði átt að gera löngu fyrr.
Nú lítur svo út fyrir að allt sé að fara í sama gamla farið. RÚV býður nú upp á huggulegan morgunþátt í sjónvarpinu þar sem á að ræða um samfélagsmálin á „uppbyggilegum og jákvæðum nótum.“ Svo uppbyggilegum reyndar að í þættinum var rætt við „unga háskólakennara sem eru með nýjar og skemmtilegar kenningar um hið svokallaða Hrun“ – eins og þáttastjórnandinn kallaði það.
Til að taka af allan vafa þá hef ég óbilandi trú á RÚV og starfsfólki þess og vil veg þeirra sem mestan.
En ég velti því samt fyrir mér hvort tími gagnrýnnar umfjöllunar í sjónvarpi sé þá lokið í bili? Hún getur líka uppfyllt skilyrði um að vera uppbyggileg og jákvæð – ekki satt?
Smá nöldur í viðbót: Öll myndskreyting þáttarins, kynningin á honum og bakgrunnur í settinu var úr miðbæ Reykjavíkur, ef ég tók rétt eftir. Það kann auðvitað að vera vegna þess að stjórnandinn og viðmælendurnir komu allir úr Reykjavík. Þetta lúkkaði samt ekki mjög vel.
Svo skil ég ekki alveg í félaga Páli Magnússyni að setja ekki tvo stjórnendur yfir svona þátt, hvorn af sínum væng stjórnmálanna. Það hefði án nokkurs vafa orðið til að gefa þættinum annað og skemmtilegra yfirbragð.
En svo verður þetta kannski bara allt saman ágætt á endanum.