Hávær púðurskot

Loksins, loksins“, hrópaði Styrmir Gunnarsson þegar hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar lagði fram tillögur sínar í haust. Hann vildi þá meina að tillögurnar mörkuðu þáttaskil í störfum ríkisstjórnarinnar sem nú myndi aftur ná vopnum sínum eftir hræðilega byrjun. „Gjörbreytt vígstaða“, hrópaði Björn Ingi Hrafnsson í grein á bloggsíðu framsóknarflokksins eftir að kjarasamningar voru undirritaðir og vildi þakka ríkisstjórninni meint ágæti þeirra. „Upprisa millistéttarinnar“, hrópaði SDG forsætisráðherra um aðgerðir stjórnvalda um skuldamál heimilanna, eins og það var kallað.

Einhverskonar heimsmet

Það liggur nú endanlega fyrir að stóra loforð framsóknarflokksins um 240-300 mia.kr. lækkun á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána hefur snúist upp í andhverfu sína. Í stað 240-300 mia.kr. lækkun sem vondir menn í útlöndum áttu að borga okkur datt sú upphæð niður í 80 mia.kr. sem við eigum að borga okkur sjálf. Í stað 80 mia.kr. sem talað var um á yfirlýstu sviði Hörpunnar fyrir þrem vikum er nú talan komin niður í um 60 mia.kr. vegna annarra þátta sem þarf að taka tilliti til. Í stað lækkunar á höfuðstól lána er nú talað um að borga fyrst vanskil, vexti, jöfnunarreikninga og fleira áður en kemur að höfuðstólnum. Í stað lækkunar skulda heimilanna í landinu er nú ljóst að innan við helmingur heimila í landinu kemst í færi við þessa aðgerð. Í stað þess að leysa vanda, á að setja tugi milljarða króna út í samfélagið án þess að nokkur vandi verði leystur.

Máttur orða

Þingmenn framsóknarflokksins raða sér í efstu (neðstu?) sæti yfir þá þingmenn sem fara sjaldnast í ræðustól Alþingis. Yngsti þingmaður flokksins fer sjaldnast allra í ræðustól og hefur gefið þá skýringu að hún fari ekki í ræðustól nema hún hafi eitthvað að segja. Sem er svo sem ágæt skýring út af fyrir sig.
Sumir ættu reyndar ekki að fara í ræðustól nema þeir viti hvað þeir ætli að segja og að það sem þeir segja getur haft afleiðingar.
Sem er hin hliðin á peningnum.

Niðurlægjandi fyrir okkur öll

Margir fagna mjög samkomulagi um lok þingsins. Samkomulagið hljóðar upp á millifærslu upp á 800 milljónir króna. Með öðrum orðum: peningar eru færðir til á milli liða, m.a. teknir úr starfsendurhæfingarsjóði og fluttir yfir til desemberuppbóta fyrir atvinnuleitendur, til að mæta tekjutapi af gistináttaskatti af sjúklingum og smá viðbætur í sjóði skapandi greina. Ekki er verið að efna til nýrra útgjalda. Allt annað er óbreytt. Millifærslan er um 0,14% af áætluðum útgjöldum ríkissjóðs á næsta ári.
Þessar 800 milljónir eru um 1% af EBITDA í sjávarútvegi á síðasta ári. Ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekki þá peninga. Þeir vilja heldur skera niður.
Án þess að ætla að gera lítið úr samkomulaginu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þá myndi ég hvetja fólk til stillingar í fangaðarlátunum.
Fjárlagafrumvarpið er eftir sem áður niðurlægjandi fyrir okkur öll.

Það er skömm að þeim

Dag eftir dag er reynt að þvinga forystumenn hægriflokkanna til að samþykkja að greiða atvinnulausu fólki desemberuppbót. En þeir neita og fella allar tillögur þess efnis. Fyrir þá sem ekki vita var desemberuppbótinni komið á af síðustu ríkisstjórn. En nú er komin ný ríkisstjórn með aðrar áherslur. Aðalmálið er að afturkalla allar ákvarðanir fyrri stjórnar. Skiptir engu hverjar þær eru. Þess vegna vilja silfurskeiðungarnir ekki púkka upp á þá sem erfiðast eiga. Þeir hafa aðra hópa samfélagsins í sigtinu þegar að því kemur að létta fólki lífið.
Að hugsa sér að harðasti pólitíski slagur dagsins snúist um svo sjálfsagt mál!
Að hugsa sér að meirihluti sé fyrir því á Alþingi að svipta atvinnulausa desemberuppbót!
Það er skömm að þessu fólki.

Ótrúleg afkoma í sjávarútvegi

Hagnaður fyrirtækja í fiskveiðum- og vinnslu fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (EBITDA) minnkaði um 100 m.kr. milli áranna 2011-2012, eða úr 79,8 mia. kr. í 79,7 mia. kr. Þetta má sjá í skýrslu Hagstofunnar um hag veiða og vinnslu. Þetta gerist þrátt fyrir að veiðigjöld hafi ríflega tvöfaldast á milli ára, úr 3,5 mia. kr. í 7,5 mia. kr. og sagt var að myndi draga allan þrótt úr greininni.
Það er fagnaðarefni að sjá tölur eins og þær sem hér koma fram. Miklar sveiflur hafa einkennt afkomu sjávarútvegsins á undanförnum áratugum og greinin mun áfram búa við miklar sveiflur þótt þær verði ekki aftur eins djúpar og áður.

Róstusamt á kærleiksheimilinu

Eftir að hafa tuskað forsætisráðherrann til úr ræðustól Alþingis í gær bætti Bjarni Benediktsson um betur í hádegisfréttum RÚV. Fyrr um morguninn hafði forsætisráðherra gefið lítið fyrir álit og umsögn AGS á stóru millifærslunni en sjóðurinn sagði hana vera vonda að flestu leyti, jafnt fyrir almenning sem ríkissjóð. Klukkutíma síðar var svo spilað viðtal við formann sjálfstæðisflokksins sem sagðist hins vegar taka athugasemdir AGS alvarlega, ekki síst varðandi áhrif millifærslunnar á Íbúðalánsjóð sem myndu kostað ríkissjóð tugi milljarða króna.
Það er greinilegt að Bjarna er farið að leiðast ruglandahátturinn í formanni framsóknarflokksins og er að taka sér stöðu gegn honum og skapa sér pólitískt rými.
Það er róstusamt á kærleiksheimilinu.

 

Bjarni setur ofan í við Sigmund Davíð

Bjarni Benediktsson staðfesti á Alþingi í morgun að forsætisráðherra hefðifarið með rangt mál í þinginu sl. þriðjudag um fyrirhugaða lækkun barnabóta. Forsætisráðherra sagði þá að um  vangaveltur og hugmyndir hefði verið að ræða en ekki mótaðar tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Bjarni lýsti því hins vegar yfir í morgun að tillögur um lækkun barnabóta hafi verið undirbúnar í ráðuneyti hans, síðan ræddar í sérstökum ríkisfjármálahópi, skipuðum ráðherrum ríkisstjórnarinnar og að lokum samþykktar í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin hafi síðan farið þess á leit við fjárlaganefnd að breytingar yrðu gerðar á fjárlagafrumvarpinu til samræmis við tillögur ríkisstjórnarinnar.

Hann laug

Forsætisráðherra fullyrti í fréttum sjónvarpsins í gær að hann hafi ekki sagt þinginu ósatt varðandi tillögur um lækkun vaxta- og barnabóta. Hann neitaði því í þinginu að ríkisstjórnin hafi lagt til að lækka bæturnar, heldur hafi þetta bara komið til umræðu eins og margt annað. „Ég sagði ekki ósatt“, sagði forsætisráðherrann, og vill meina að fréttastofa RÚV fari með rangt mál. Upptökur af þinginu benda hins vegar til annars. Þar fer saman hljóð og mynd og ekki hægt að víkja sér undan því.

Í tilefni dagsins!

Í tilefni dagsins, heimsmetsins, lækkandi vaxtabóta; lækkandi framlaga til framhaldsskóla; niðurfellingu auðlegðarskattsins; lækkun veiðigjalda og tekjuskatts; minni þróunaraðstoðar, ásamt öllu öðru smáu sem stóru, skellti ég í eina skyrtertu í morgun.
Eins og gefur að skilja notar maður skyr í skyrtertu. En ekki hvaða skyr sem er, heldur KEA skyr - ósykrað og óhrært. Allt annað eru eftirlíkingar sem ber að varast.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS