Glæsilegt skip bætist í flotann

Kaup Brim hf á öflugu og glæsilegu skipi er enn einn vitnisburðurinn um góðan gang og bjarta framtíð í sjávarútveginum. Kaup Síldarvinnslunnar á Bergi-Huginn, nýtt skip Ísfélagsins í Eyjum (sjá má ágætt tónlistarmyndband því tengdu hér), kaup Síldarvinnslunar á skipi sl. vetur, endurbætur á skipum Samherja og nú kaup Brim hf sýna fjárfestingar upp á hátt í 20 milljarða króna á skömmum tíma og er þá ekki allt til talið. Samt er því stöðugt haldið fram að fjárfesting í sjávarútvegi sé við frostmark og gríðarleg óvissa hái útgerðinni. Fátt er eins fjarri sanni.

Fólskubragð framsóknarforystunnar

Það er ljóst að forysta framsóknarflokksins ætlar félaga mínum Höskuldi Þór Þórhallssyni stórt hlutverk. Formaður og varaformaður flokksins biðu með að tilkynna ákvörðun sína um tímabundna útvistun varaformannsins og framboð formannsins í NA-kjördæmi þar til Höskuldur Þór hafði tilkynnt um sín áform. Þá fyrst kemur í ljós að það hafði lengi verið ætlun þeirra að haga málum með þeim hætti að varaformaðurinn viki sæti fyrir formanninum. En það vissi Höskuldur Þór ekki um og því ákvað hann að sækjast eftir fyrsta sætinu. Til að undirstrika svo enn frekar en áður hvað Höskuldur verið verið ómeðvitaður um hvað var að gerast hjá forystu flokksins tilkynnir Sigurður Ingi Jóhannssin svo um framboð til varaformanns, greinilega með velþóknun formannsins. Það er einnig ljóst að formaður og varaformaður koma ekki úr sama kjördæmi. Höskuldi Þór hefur því verið ýtt hratt og örugglega til hliðar.

Kostnaðurinn fari á rétt heimilisfang

Í frumvarpi til Fjáraukalaga 2012 kemur fram að þjóðaratkvæðagreiðslan um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá muni kosta 240 milljónir króna (bls. 17). Í upphafi ver gert ráð fyrir því að þessi kosning færi fram samhliða forsetakosningunum í sumar sem hefði haft mun minni kostnað í för með sér. Af því varð ekki sökum þess að sjálfstæðismenn á þingi lögðust í málþóf til að koma í veg fyrir breytingar á stjórnarskránni og tóks að tefja málið svo að ekki var mögulegt greiða atkvæði um tillögurnar um leið og kosið var til forseta.

Málþófið kostar okkur því ríflega 200 milljónir króna.

Spurning hvort ekki sé rétt að send reikninginn til síns heima?

Hvernig mátti þetta gerast?

Í dag var rædd þingsályktunartillaga um að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003 um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Markmið tillögunnar er að leiða í ljós hvernig það mátti gerast að framantaldir bankar voru afhentir sérstökum vildarvinum sjálfstæðis- og framsóknarflokki með skelfilegum afleiðingum fyrir alla þjóðina.

Samhljóða tillaga var lögð fram á síðasta þingi en fékkst ekki afgreidd af kröfu stjórnarandstöðunnar sem lagðist gegn því af öllu afli þegar samið var um þinglok sl. vor.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir m.a. um þetta mál:

„Á lokastigum söluferlisins frá miðju sumri 2002 varð síðan framkvæmd þess með þeim hætti að fallið var frá því að gera yrði kröfur um faglega þekkingu og reynslu af fjármálaþjónustu til kaupenda kjölfestuhluta í bönkunum.“

Gjaldmiðilsverðbólga

Samtök fjármálafyrirtækja birtu á dögunum skýrslu nokkurra sérfræðinga um verðtryggingu, vexti og verðbólgu sem hefur fengið verðskuldaða athygli. Í ljósi skýrslu Seðlabankans um gjaldmiðils- og gengismál sem fram kom í vikunni er athyglisvert að lesa í fyrrnefndu skýrslunni um tengsl verðbólgu og stöðu krónunnar. Þar kemur fram að verðbólga á Íslandi hefur í gegnum árin verið á svipuðu róli og í EES-löndunum – nema þegar krónan hefur veikst eða fallið. Á línuritinu hér fyrir ofan sést þetta mjög vel (bls. 39). Það má stækka myndina með því að smella á hana. Bláa línan sýnir verðbólgu í EES-löndunum en gula línan verðbólgu hér á landi frá árabilinu 1996-2011. Krónan flöktir verulega um og upp úr 2000 og ýtir þá verðbólgunni upp, það gerist síðan aftur 2006-2007 og svo fellur hún rækilega í Hruninu og hleypir verðbólgunni upp úr öllu valdi.

Reglubræður Flokksins

Baldur Guðlaugsson tekur hluta refsingar sinnar út í faðmi verjenda sinna. Geir Hilmar Haarde var komin til starfa hjá félögum sínum áður en sektarblekið var þornað á dómskjölum Landsdóms. Hinir seku njóta bæði virðingar og velvildar hjá reglubræðrum Flokksins.

Reglubræðurnir sjá um sína.

Þarf ekki að spyrja um það ...

Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um kosnaðinn við Landsdóm sem dæmdi fyrrverandi formann sjálfstæðisflokksins sekan um afglöp við landsstjórnina sl. vor. Markmiðið með fyrirspurninni er án efa að reyna að sýna fram á að kostnaðurinn við dómsmál af þessu tagi sé svo mikilli að ekki sé hægt að réttlæta málssókn gegn stjórnmálamönnum eins og Geir. En það er um að gera að fá þann kostnað fram.

Hitt liggur að mestu fyrir hver kostnaðurinn af afglöpum formannsins fyrrverandi er orðin fyrir þjóðina. Fólk finnur það á eigin skinni á stórhækkuðum lánum sínum, atvinnuleysi, gjaldþrotum og annarri óáran sem hent var í þjóðina haustið 2008.

Það þarf ekki að leggja fram neina fyrirspurn um það.

2% teboð

Samkvæmt alþjóðlegri skoðanakönnun myndu aðeins 2% íslendinga þiggja teboð Bjarna Benediktssonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur.

Það er líka alveg nóg.

Fyrst á réttunni, svo á röngunni ...

Stjórnarnandstaðan tók Alþingi í gíslingu síðasta vor. Markmiðið var að koma í veg fyrir að frumvarp um veiðigjöld næði fram að ganga. Að lokum gerðu formenn stjórnmálaflokkanna samkomulag sín á milli um afgreiðslu málsins. Í því fólst að veiðigjaldið var tekið til afgreiðslu en frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða látið bíða næsta þings. Í kjölfarið var veiðigjaldið svo lögfest með ríflegum meirihluta þingsins og þar með staðfest ein mesta og mikilvægasta löggjöf sem gerð hefur verið varðandi nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Þingið vann fullnaðarsigur í mikilvægu máli. Gengdarlaus áróður gegn stjórnvöldum upp á tugi ef ekki hundruð milljóna bar ekki árangur. Stjórnarliðar fögnuðu sigri í einu erfiðasta máli kjörtímabilsins.

Þriðjungur þjóðarinnar óánægður

Fjárlagafrumvarp næsta árs mun valda ríflega þriðjungi þjóðarinnar miklum og djúpum vonbrigðum. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir niðurskurði í útgjöldum, heldur er nú í fyrsta sinn frá Hruni komið að því að sýna eðlilegt aðhald í rekstri ríkisins, rétt eins og við eigum alltaf að gera. Í frumvarpinu er ekki gerð krafa um samdrátt í útgjöld til heilbrigðismála í fyrsta sinn frá Hruni. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að útgjöld til fjölskylda munu aukast í formi barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta.

Allt þetta og margt fleira mun falla í grýttan jarðveg hjá ríflega þriðjungi þjóðarinnar.

Það er sá hluti þjóðarinnar sem segist ætla að kjósa sjálfstæðisflokkinn sem orgar nú á grimmilegri niðurskurð sem aldrei fyrr. Það er sá hluti þjóðarinnar sem tekur undir með formanni sjálfstæðisflokksins þegar hann kallar það veruleikafirringu að ráðast ekki í umfangsmikinn niðurskurð í velferðarkerfinu.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS