Gjaldmiðilsverðbólga

Samtök fjármálafyrirtækja birtu á dögunum skýrslu nokkurra sérfræðinga um verðtryggingu, vexti og verðbólgu sem hefur fengið verðskuldaða athygli. Í ljósi skýrslu Seðlabankans um gjaldmiðils- og gengismál sem fram kom í vikunni er athyglisvert að lesa í fyrrnefndu skýrslunni um tengsl verðbólgu og stöðu krónunnar. Þar kemur fram að verðbólga á Íslandi hefur í gegnum árin verið á svipuðu róli og í EES-löndunum – nema þegar krónan hefur veikst eða fallið. Á línuritinu hér fyrir ofan sést þetta mjög vel (bls. 39). Það má stækka myndina með því að smella á hana. Bláa línan sýnir verðbólgu í EES-löndunum en gula línan verðbólgu hér á landi frá árabilinu 1996-2011. Krónan flöktir verulega um og upp úr 2000 og ýtir þá verðbólgunni upp, það gerist síðan aftur 2006-2007 og svo fellur hún rækilega í Hruninu og hleypir verðbólgunni upp úr öllu valdi.

Þetta segir samt lítið um krónuna sjálfa sem slíka heldur miklu frekar undirstrikar þetta annarsvegar veikleika lítillar myntar og hinsvegar afleiðingar vondrar efnahagsstjórnar.

Það skiptir ekki nokkru máli hvað myntin heitir. Afleiðingar vondrar stjórnar verður alltaf sú sama fyrir samfélagið.

Eins og við vitum öll.