Sjálfstæð þjóð lætur ekki segja sér fyrir verkum

Í stuttu máli má segja að niðurstaða kosninganna í gær hafi verið sú að þjóðin lætur ekki sjálfstæðisflokkinn segja sér fyrir verkum.

Það er gott.

Helvítis síminn ...

Haustið 2008 bar þetta helst til tíðinda á Íslandi:

Allt íslenska bankakerfið varð gjaldþrota

Seðlabankinn varð gjaldþrota

Verðbólga steig til himna

Vaxtastigið sömuleiðis

Gjaldmiðillinn féll um helming

Skuldir heimilanna tóku stökkbreytingum

Þúsundir heimila lentu í alvarlegum skuldavanda

Þúsundir fyrirtækja urðu gjaldþrota

Þúsundir vinnufæra Íslendinga urðu atvinnulausir

Upplýst var um gengdarlausa spillingu í viðskiptalífinu

Upp komst um gegnspillta stjórnmálamenn og flokka

Hryðjuverkalög voru sett á landið

Ísland var einangrað á alþjóðavettvangi

Íslenska þjóðin var hneppt í skuldafjötra

En fólkið í landinu tók ekki eftir þessu. Það var svo heimskt að það fattaði ekki hvað hafði gerst. Fólkið át bara sína soðningu með hömsum og tólg daginn út og inn og hélt að allt væri í stakasta lagi.

Í þá gömlu góðu daga ...

Árið 2005 var Lánasjóður landbúnaðarins seldur til Landsbanka Íslands, sem þá hafði nýlega verið einkavinavæddur. Söluverðið var tæpir þrír milljarðar króna. Það „gleymdist“ hinsvegar að aflétta ríkisábyrgð á lánsjóðnum. Það leiddi til þess að þegar Landsbankinn fór á hliðina varð ríkisábyrgðin virk og við, þjóðin, tókum þessa þrjá milljarða á okkur eins og margt annað. Fjármálaráðherra á þessum tíma var Geir H Haarde og landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum. Frá þessu er m.a. sagt í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2009 sem síðar urðu að lögum (bls. 146). Það er einnig fjallað um þetta mál í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 2010 (bls. 24).

Það hefur hinsvegar farið hljóðar að söluvirðið mun ekki hafa skilað að fullu í ríkissjóð eins og það hefði þó átt að gera. Hluta þess mun hafa verið ráðstafað í reiðhallir og hesthús líkt og því sem sjá má hér að ofan. Hvort nafn hússins sé tilviljun eða tengt þeim sem lagði fé til byggingarinnar skal ósagt látið.

Opinber fjármálastarfsemi bönnuð á höfuðborgarsvæðinu?

Svört skýrsla um Orkuveitu Reykjavíkur kemur til viðbótar öðrum sambærilegum skýrslum um afglöp og misferli með opinbert fé.

Það er eins og ekkert geti gengið upp á þeim vettvagni þar syðra. Það er eins og allar áætlanir hafi verið og séu enn á froðu reistar. Það er eins og þar hafi enginn haft yfir nokkru viti að ráða til að fara með almannafé.

Þó leiðist þeim ekki að gagnrýna og tortryggja rekstur og framkvæmdir á landsbyggðinni þegar það á við. Eru þó engin álíka dæmi um gegndarlaust klúður þar líkt og í og við höfuðborgina.

Þetta getur ekki leitt nema til eins:

Að öll opinber fjármálastarfsemi verði bönnuð á höfuðborgarsvæðinu.

Orð og efndir

Einu sinni heyrði ég eftir lögreglumanni í plássi úti á landi að þar á bæ hefðu menn tekið ákvörðun um að tilkynna öll fíkniefnabrot sem upp komst á svæðinu. Fram að því höfðu slík mál farið heldur lágt og ekki þótt gott til afspurnar að upp kæmist um slík mál. Að margra mati gæti það sett ljótan blett á bæinn að útvarpa fréttum af sölu og neyslu fíkniefna. Með því að senda út tilkynningu um hvert einasta mál sem upp komst voru hinsvegar send út skilaboð til fíkniefnasamfélagsins að það væri engin óhultur við slíka iðju í plássinu og lögreglan væri vel vakandi yfir slíkum málum.

Það er því nákvæmlega hárrétt hjá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra þegar hann segir að aðgerðir lögreglunnar gegn glæpagengjum séu skýr skilaboð út í þann heim að hótanir og ofbeldi verði aldrei þolað, ekki undir neinum kringumstæðum.

Vel fallin til forystu

Oddný Harðardóttir er um margt sérstakur stjórnmálamaður. Fyrir utan að hafa óskað eftir þingsæti í kosningunum 2009 hefur hún mér vitanlega aldrei falast eftir frama eða forystu eins og svo margir aðrir. Þó hefur það gerst að henni hafa verið falin ýmis verkefni á undanförnum árum sem aðrir hafa sóst eftir. Þannig var henni treyst fyrir fjárlaganefnd þingsins á sínum tíma, fyrir forystu þingflokksins og að endingu var farið fram á það við hana að yrði fjármálaráðherra sem og hún gerði. Allt þetta leysti hún af hendi með miklum sóma og án átaka sem oftast á við um þá sem sækja fast frama í stjórnmálum.

Það er einkenni þeirra sem fara hægt yfir að komast alla leið á meðan við hin hrösum og missum sjónar á markmiðunum. Oddný hefur ekki sóst eftir forystuhlutverki í Samfylkingunni á landsvísu, ólíkt öðrum.

Það kæmi mér hinsvegar ekki á óvart að þannig færi það hinsvegar að lokum.

Enda er hún vel fallin til forystu eins og dæmin sýna.

Það þarf að finna Finninn í málinu

Umfjöllun Kastljóss um skýrsludrög Ríkisendurskoðunar hafa vakið gríðarlega athygli sem vonlegt er. Upplýsingar sem lekið hafa út úr stofnuninni eru þess eðlis að óumflýjanlegt er að rannsaka málið allt, bæði það sem snýr að Ríkisendurskoðun og sömuleiðis og ekki síður hlut Fjársýslu ríkisins. Trúðverðugleiki okkar bæði inn á við og gagnvart öðrum þjóðum er í húfi. Það getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér í samskiptum okkar við aðrar þjóðir ef ekki ríkir trú á svo mikilvægum stofnun og hér um ræðir og mun á endanum koma niður á okkur öllum eins og dæmin sýna.

Ég átti samtal við mann á dögunum sem sagði við mig að það þyrfti „…að finna Finninn í málinu.“ Ég skildi fyrst ekki við hvað var átt en var þá bent á það að það væri alltaf einhver Finnur í öllum svona málum. Það væri alltaf einhver sem hefði tekist að maka krókinn með einum eða öðrum hætti. Alltaf einhver sem hafi haft áhrif á gang mála með eigin hagsmuni að leiðarljósi.

Kannski er einhver Finnur í þessu máli – kannski ekki.

Röng frétt - í öllum meginatriðum

RÚV sagði frá því í fréttum í gær að lítið hafi gerst hjá þinginu varðandi tillögur sem það sjálft samþykkti í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og síðar þingmannanefndar. Fréttin er svo endurtekin í morgun og bætt við hana viðtali við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Þessi frétt er í öllum meginatriðum röng eins og þeir vita sem vilja.

Þingmannanefndin lagði til í ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um hlutverk Alþingis (sjá bls. 5 og 6). Öll vitum við hvernig umræðan um nýja stjórnarskrá hefur gegnið fyrir sig á þinginu en loksins blasir þó við að greidd verði atkvæði um tillögur að nýrri stjórnarskrá, reyndar í andstöðu við stjórnarandstöðuna. Nefndin lagði einnig til eftirfarandi: 

1.         Þingmannanefndin telur rétt að alþingismenn setji sér siðareglur.              

Málefni Ríkisendurskoðunar

Ríkisendurskoðun hefur árum saman trassað að skila þinginu niðurstöðu úttektar á stóru máli, þrátt fyrir eftirgangssemi. Í vinnuferlinu kemst Ríkisendurskoðun að því að um mikla misbresti er að ræða varðandi málið og margt er við það að athuga jafnt hvað kostnað, gæði, öryggi og fagmennsku varðar. Samt vekur stofnunin aldrei athygli Alþingis á málinu, hefur þó haft greiða leið að þinginu allan þann tíma. Alþingi fær því ekki nauðsynlegar upplýsingar um alvarlegt mál í rekstri ríkisins og getur þ.a.l. ekki brugðist við. Á þessu hefur stofnunin ekki gefa neinar viðhlítandi skýringar. Þetta er megin ástæðan fyrir því trúnaðarrofi sem orðið hefur á milli Alþingis og Ríkisendurskoðunar.

Það heyrir nú undir Alþingi og þá væntanlega einnig Ríkisendurskoðun að grípa til ráðstafana svo endurheimta megi nauðsynlegt traust á milli þingsins og einnar af mikilvægustu undirstofnunum þess.

Þjóðin á henni mikið að þakka

Jóhanna Sigurðardóttir er fyrirmyndar stjórnmálamaður. Hún hefur aldrei látið af trú sinni á jöfnuð og réttlæti og alltaf haft það í forgrunni allra sinna ákvarðana á vettvangi stjórnmálanna. Henni var falið eitt erfiðasta hlutverk sem nokkur stjórnmálamaður hefur tekið að sér á síðari tímum. Eftir fullkomið Hrun Íslenska efnahagsmála og í kjölfarið uppljóstrana um gríðarlega spillingu í viðskiptum og stjórnmálum hér á landi var henni falið að reisa landið við og leggja grunn að nýju og betra samfélagi. Til þeirra verka hefur hún haft í sínu liði harðsnúnari stjórnmálamenn en áður hefur þekkst sem í sameiningu tókst nánast hið ómögulega; að bjarga Íslandi frá örbirgð.

Sjálfur hef ég ekkert nema gott um Jóhönnu að segja og mun ekki bera henni annað en góð orð.  

Að því undanskildu að hún getur stundum verið andskotanum þverari.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS