Þriðjungur þjóðarinnar óánægður

Fjárlagafrumvarp næsta árs mun valda ríflega þriðjungi þjóðarinnar miklum og djúpum vonbrigðum. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir niðurskurði í útgjöldum, heldur er nú í fyrsta sinn frá Hruni komið að því að sýna eðlilegt aðhald í rekstri ríkisins, rétt eins og við eigum alltaf að gera. Í frumvarpinu er ekki gerð krafa um samdrátt í útgjöld til heilbrigðismála í fyrsta sinn frá Hruni. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að útgjöld til fjölskylda munu aukast í formi barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta.

Allt þetta og margt fleira mun falla í grýttan jarðveg hjá ríflega þriðjungi þjóðarinnar.

Það er sá hluti þjóðarinnar sem segist ætla að kjósa sjálfstæðisflokkinn sem orgar nú á grimmilegri niðurskurð sem aldrei fyrr. Það er sá hluti þjóðarinnar sem tekur undir með formanni sjálfstæðisflokksins þegar hann kallar það veruleikafirringu að ráðast ekki í umfangsmikinn niðurskurð í velferðarkerfinu.

En það er allt í lagi mín vegna. Mitt hlutverk á Alþingi er hvorki að gleðja formann sjálfstæðisflokksins né þá sem taka undir með honum.

Ég og félagar mínir í stjórnarliðinu erum á allt annarri leið.