Það er ljóst að forysta framsóknarflokksins ætlar félaga mínum Höskuldi Þór Þórhallssyni stórt hlutverk. Formaður og varaformaður flokksins biðu með að tilkynna ákvörðun sína um tímabundna útvistun varaformannsins og framboð formannsins í NA-kjördæmi þar til Höskuldur Þór hafði tilkynnt um sín áform. Þá fyrst kemur í ljós að það hafði lengi verið ætlun þeirra að haga málum með þeim hætti að varaformaðurinn viki sæti fyrir formanninum. En það vissi Höskuldur Þór ekki um og því ákvað hann að sækjast eftir fyrsta sætinu. Til að undirstrika svo enn frekar en áður hvað Höskuldur verið verið ómeðvitaður um hvað var að gerast hjá forystu flokksins tilkynnir Sigurður Ingi Jóhannssin svo um framboð til varaformanns, greinilega með velþóknun formannsins. Það er einnig ljóst að formaður og varaformaður koma ekki úr sama kjördæmi. Höskuldi Þór hefur því verið ýtt hratt og örugglega til hliðar.
Nú er hinsvegar úr vöndu að ráða fyrir Höskuld sem þarf að velja um tvo slæma kosti. Annaðhvort heldur hann sínu striki og tapar örugglega fyrir formanninum um fyrsta sæti í kjördæminu og þá væntanlega í leiðinni þingsæti eða hann lúffar áður en til þess kemur og þá í þeirri von að forystan setji hann í annað sæti listans í kjördæminu. Það er reyndar líklega niðurstaða enda þarf Sigmundur á Höskuldi að halda í kjördæminu í kosningabaráttunni þar sem hann hefur engin tengsl norður í sitt nýja kjördæmi. Nema hann sjá sæng sína útreidda og leiti á ný mið utan þings.
Framganga forystusveitar framsóknarflokksins gagnvart Höskuldi Þór er því mikið fólskubragð af þeirra hálfu.
Reykjavíkurhluti þessara hrókeringa er svo kapítuli út af fyrir sig.