Sviptingar í sjávarútvegi

Sögu fjölskyldufyrirtækis í Vestmannaeyjum lauk í dag þegar Síldavinnslan keypti Berg-Huginn með húð og hári. Sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er selt svo aðaleigandi þess geti staðið skil skulda sinna sem að stórum hluta eru vegna fjárfestinga utan sjávarútvegsins og í alls óskyldum rekstri. Það er að mörgu leiti sorglegt hvernig fór fyrir þessu rótgróna fyrirtæki og örugglega þyngra en tárum taki fyrir margan Eyjamanninn að horfa upp á það. Fall Bergs-Hugins er átakanlegt dæmi um það hvernig hægt er að setja heilt byggðarlag í uppnám með gengdarlausri sóun og ábyrgðarleysi. Það er hinn kaldi veruleiki sem áhafnir skipa fyrirtækisins, annað starfsfólk og Eyjamenn allir standa nú frami fyrir.

Engu gleymt og ekkert lært

Fyrir rúmum þrem árum var skattkerfið á Íslandi eitt það óréttlátasta og ónýtasta í hinum vestræna heimi. Flattur skattur á laun óháð launaupphæð, fjármagnstekjuskattur sá lægsti á byggðu bóli og fyrirtækja skattur sömuleiðis. Hinum efnameiri var hyglað á kostnað annarra. Skattbyrðin jókst á lægri laun og minnkaði á hærri laun. Jafnvel skattkerfið í bandaríkjunum stóðst ekki ójöfnuð á við það íslenska. Þegar á reyndi var það svo fullkomlega ónýtt til að afla ríkissjóði þeirra tekna sem til þurfta til að reka samfélagið.

Nú stíga tveir helstu talsmenn sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum fram og leggja til lágan flatan launaskatt á öll laun. Lægri en þekkist á byggðu bóli. Þeir kallað það hinn fullkomna jöfnuð. Þeir virðast vera tilbúnir til að endurtaka leikinn þrátt fyrir afleiðingarnar sem það kostaði okkur.

Þeir hafa engu gleymt.

Það sem verra er – þeir hafa ekkert lært.

Tveir flokksráðsfundir hjá Vinstri grænum um helgina

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hélt tvo flokksráðsfundi um helgina. Annar þeirra var haldin á Hólum í Hjaltadal.  Þann fund sat ég. Mæting var góð, meiri en búist var við og góður samhljómur hjá fundarmönnum. Allar ályktanir sem bornar voru upp á fundinum voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þar á meðal var ályktun um vilja flokksráðsins til áframhaldandi samstarfs vinstriflokkanna í landinu.

Ég veit ekki hvar hinn fundurinn var haldinn en af honum eru sagðar þær fréttir að þar hafi komið fram stigvaxandi óánægja með flokksmanna sem gæti jafnvel leitt til stjórnarslita. Engar slíkar ályktanir hafa enn birst frá þessum fundi mér vitanlega. Tilfrásagnar af þessum leynda fundi eru þeir helstir sem ekki voru fundinum á Hólum í Hjaltadal enda geta menn skiljanlega ekki verið á tveim stöðum í einu.

Hatursfullir hagfræðingar og flissandi fjölmiðlamenn

Útvarpsstöðin Bylgjan hefur lengi boðið hlustendum sínum upp einræður tveggja sjálfstæðismanna um verk ríkisstjórnarinnar og þjóðmálin almennt. Þetta er gert undir því yfirskyni að hér sé um virta hagfræðinga að ræða sem fjalli af fagmennsku og yfirvegun um þjóðmálin. Þetta eru auðvitað félagarnir og hagfræðingarnir Ólafur Arnarson og Ólafur Ísleifsson.

En hagfræðingarnir eru komnir í rökþrot. Þeir tala ekki lengur (ef þeir hafa þá einhverntímann gert það) um hagfræði. Þeir hafa berað sig sem ofsafengnir hægrimenn hverra hugmyndafræðilega heimur hrundi undan haustið 2008. Þeir eru mát. Eiga engin svör. Engin rök – engin málatilbúnaður – aðeins frussandi hatur og óbeit sem þeir einir geta sýnt af sér sem hafa orðið undir í rökræðunni. Eina sem frá þeim kemur er haturfullur áróður tveggja hægrimanna gegn stjórnvöldum og þá sér í lagi formanni Vinstri grænna.

Siðlaus okurlánastarfsemi

Svokölluð smálán er okurlánastarfsemi sem fyrst og fremst er otað að ungu og efnalitlu fólki. Gerðar hafa verið atlögur að því að koma böndum á þessa starfsemi sem enn hafa ekki borið tilætlaðan árangur. Þvert á móti þá vex þeim fyrirtækjum fiskur um hrygg sem stunda slíkan bissness. Smálán í því formi sem hér þekkjast eru óásættanleg í íslensku samfélaga. Arfur þess gamla tíma sem allt sem ekki var hreinlega bannað þótti gott og gilt óháð öllu öðru.

Það er nauðsynlegt að stöðva slíka á lánastarfsemina sem hér um ræðir og það verður gert.

Forsetavald flutt með kossi?

Forseti Íslands segir forsetavaldið flutt milli aðila með handabandi. Þess vegna sé nauðsynlegt að einhver handhafi forsetavaldsins fylgi honum til flugs, kveðji hann með handabandi og bíði allt þar til öryggisbeltið er tryggilega fest um mitti forsetans og tryggilega frá því gengið að hann fari örugglega úr landi. Þar með hafi forsetavaldið flutt frá einum aðila til annars.

En hversvegna ekki að kveðjast með kossi í stað handabands? Koss er innileg athöfn, undirstrikar og innsiglar traust samband þeirra tveggja (nema allir handhafarnir mæti) sem láta varir sínar snertast. Kossar styrkja sambönd einstaklinga, efla trúnað, auka vellíðan auk þess sem almennt er talið að kossar beri ekki eins smit á milli manna og handatak gerir.

Kveðjukoss forseta og handahafa forsetavalds gæti einnig orðið til þess að draga úr utanferðum forsetans og lækka kostnað þeim fylgjandi.

Kossar hafa því margt umfram hefðbundið handaband og því alls ekki úr vegi að taka upp þann skemmtilega sið framselja forsetavald með innilegum kossi.

Þetta er samt ömurlegt

Talsmenn atvinnurekenda hafa læst höndum saman við morgunblaðið að útskýra minnkandi atvinnuleysi. Sameiginleg niðurstaða þeirra er þessi:

Atvinnuleysi er í raun meira en mælingar sýna vegna þess hvað margir hafa flutt frá landinu út af vinstristjórninni.

Atvinnuleysi fer hvort sem er alltaf minnkandi yfir sumarmánuðina.

Störfum í byggingarstörfum er bara að fjölga vegna gaufs í kvikmyndageiranum.

Þetta er bara tímabundið.

Atvinnuleysi mun hvort sem er aukast aftur í haust.

Ástandið er ömurlegt og verður það áfram.

Það er engu líkara en talsmenn atvinnulífsins séu frekar súrir en sætir yfir aukinni atvinnu og að framundan séu mörg stór verkefni sem munu draga enn frekar úr atvinnuleysi í landinu. Þeir leggja talsvert á sig við að draga kjarkinn úr þjóðinni.

Þar er mogginn betri liðsmaður en enginn.

Fylgdarþjónusta forsetans

Ólafur Ragnar Grímsson hefur notið samvista við margan manninn á ferðum sínum um heiminn í forsetatíð sinni. Hefur þar frekar verið lögð áhersla á magn en gæði fylgarliðsins af hans hálfu. Upphaf ferða hans er hinsvegar alltaf þannig að honum er fylgt til flugs af handhöfum forsetavalds hverju sinni eins og fram hefur komið. Þetta er auðvitað hlægilegur hégómi af hálfu forsetans sem heldur fast í þetta úrelta og hallærislega fyrirkomulagi.

Aðstæðurnar í pólitíkinni

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokksins segir að rétt sé að hægja á ESB umsókninni m.a. vegna aðstæðna í pólitíkinni hér heima. Með „aðstæðna í pólitíkinni“ á hann við að sjálfstæðisflokkurinn er ekki við völd. Þorsteinn er einn af þeim sem lítur á það sem tímabundið frávik frá norminu að Flokkurinn er ekki í stjórnarráðinu. Það mun hinsvegar lagast fljótlega að mati formannsins fyrrverandi og allt falla í sama horf og áður var. Þá verður allt gott aftur og aðstæðurnar í pólitíkinni honum að skapi. Því sé best að bíða þangað til það gerist, hægja á tilverunni og snöggkæla samfélagið þangað til Flokkurinn fær aftur sín fyrri völd. Þá verður aftur kátt í Val-höllinni.

Ég er smeykur um að aðstæðurnar í pólitíkinni kunni að verða Þorsteini Pálssyni lítt að skapi lengur en hann óskar sér.

Rauð Frances er málið!

Fluguboxið mitt er tiltölulega einfald að umfangi. Með tíð og tíma hefur þeim fækkað verulega flugunum sem fara á línuendann hjá mér og er nú svo komið að ég kasta bara nánast bara einni flugu fyrir laxinn heilu sumrin. Rauðri Frances með keiluhaus, af ýmsum stærðum reyndar og helst frá Dr. Jónasi. Ég tók alla mína fiska á rauða Frances í fyrra sumar, að einum undanskildum sem féll fyrir 1/2" svarti Frances – með keiluhaus. Í urriðanum nota ég hinsvegar eingöngu litlar púpur eða þurrflugur. En það er önnur saga.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS