Hvernig mátti þetta gerast?

Í dag var rædd þingsályktunartillaga um að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er rannsaki einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og tengd málefni á árunum 1998–2003 um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Markmið tillögunnar er að leiða í ljós hvernig það mátti gerast að framantaldir bankar voru afhentir sérstökum vildarvinum sjálfstæðis- og framsóknarflokki með skelfilegum afleiðingum fyrir alla þjóðina.

Samhljóða tillaga var lögð fram á síðasta þingi en fékkst ekki afgreidd af kröfu stjórnarandstöðunnar sem lagðist gegn því af öllu afli þegar samið var um þinglok sl. vor.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir m.a. um þetta mál:

„Á lokastigum söluferlisins frá miðju sumri 2002 varð síðan framkvæmd þess með þeim hætti að fallið var frá því að gera yrði kröfur um faglega þekkingu og reynslu af fjármálaþjónustu til kaupenda kjölfestuhluta í bönkunum.“

M.ö.o. er það niðurstaða Rannsóknarnefndarinnar að það hafi verið pólitísk ákvörðun að gera hvorki kröfu um faglega þekkingu né reynslu af fjármálaþjónustu til væntanlegra kaupenda.

Síðar segir í skýrslunni:

„Í stórum dráttum má ráða þá mynd af umfjöllun í kaflanum og þá sérstaklega áherslu stjórnvalda á að ljúka söluferlinu á kjörtímabilinu, raunar næstum hálfu ári áður en kosningar áttu að eiga sér stað, að stjórnvöld hafi frá og með áliðnu sumri 2002 í vaxandi mæli látið pólitísk markmið um að ljúka einkavæðingu bankanna sem slíkri hafa forgang gagnvart þeim faglegu markmiðum sem áður höfðu verið sett fram og gengið hafði verið út frá í söluferlinu fram að þeim tíma.“

Á þessu og mörgu öðru má sjá að full ástæða er til að rannsaka frekar hvað bjó að baki svo kallaðri einkavæðingu íslensku bankanna.

Miðað við umræðurnar um málið á þinginu í dag má vænta þess að tillagan fái skjóta afgreiðslu að þessu sinni og hétu þingmenn stjórnarandstöðunnar liðsinni sínu við að drífa málið frá jafnvel í næstu viku.

Guð láti gott á vita.