Hversvegna fær Flokkurinn ekki það sem hann vill?

Það er oft ekki annað hægt en dást að viðhorfi Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar til lífsins og tilverunnar. Mitt í fullkomnu gjaldþroti þeirra pólitísku hugmyndafræða sem hann hefur talað fyrir áratugum saman, beitir hann sér fyrir sérstöku frjálshyggjuátaki í Háskóla Íslands og virðist ætla að komast upp með það. Hverjum öðrum hefði dottið þetta í hug? Grein Hannesar Hólmsteins um mannaráðningar við Hörpuna hefur sömuleiðis hlotið verðskuldaða mikla athygli en þar krefst hann skýringa á því hversvegna „… Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, leikaradóttir, lögfræðingur og fyrrverandi útvarpskona, alþingismaður og menntamálaráðherra, var ekki valin úr hópi umsækjenda til að veita menningarhúsinu Hörpu forstöðu.“

Vinstri eða hægri - skýrar línur.

Norðanmaðurinn knái, Magnús Halldórsson og viðskiptablaðamaður á 365 miðlum, skrifar grein á visi.is í gær um ríkisfjármálin. Þar tekur hann undir niðurskurðarhugmyndir formanns sjálfstæðisflokksins sem honum finnst vera fullkomlega eðlilegar. Jafnframt lítur hann svo á að viðbrögð stjórnarliða einkennist fyrst og síðast af því að það er kosningavetur framundan. Lesa má úr skrifum hans að ef svo væri ekki myndu vinstrimenn fara sömu leið og sjálfstæðisflokkurinn í blóðugum niðurskurði í opinberum rekstri, lokun sjúkrahúsa og skóla og fjöldauppsagna starfsfólks.

Þetta er alrangt hjá Magnúsi Halldórssyni.

Allt þetta kjörtímabil hefur tekist harkalega á um tillögur hægrimanna um niðurskurð og leið vinstrimanna um blanda leið tekjuöflunar og samdráttar í útgjöldum. Sú deila stendur enn yfir eins og sjá má á viðbrögðum hægrimanna við nýjum tekjuöflunarleiðum, hvort sem um er að ræða veiðigjöld eða þrepaskipt skattkerfi og allt þar á milli. Hægrimenn vilja frekar draga úr útgjöldum en auka tekjurnar.

Sársaukafullur bati

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum eru tekjur ríkisins fyrri hlut ársins meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og útgjöldin lægri. Um þetta þarf ekki að deila. Þetta eru tölulegar staðreyndir sem blasa við öllum. Hærri tekjur – minni útgjöld.

Í Fréttablaðinu í morgun er viðtal við tvo menn í þessu sambandi. Annarsvegar segir Daði Már Kristófersson dósent í hagfræði við Háskóla Íslands að það sé ekkert eitt sérstaklega sem bendi til þess að hlutirnir séu farnir að gera sig, heldur allt. Samfélagsreikningurinn er í fjárhagslegum bata, segir hann. Hinsvegar er rætt við talsmann sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd sem segist ætla að hafa allan fyrirvara á þessum staðreyndum. Svo notar hann tækifærið af þessu tilefni til að hnýta í opinberar stofnanir eins og Háskólann á Akureyri sem hafa staðið mjög vel að málum frá Hruni.

Það er greinilega sársaukafullt fyrir sjálfstæðismenn að horfa upp á efnahag landsmanna batna.

Kreppuhvetjandi stjórnmálamaður

Lilja Mósesdóttir formaður Samstöðu segir að ekki sé hægt að útskýra fylgishrun flokksins í skoðanakönnunum.

Það má þó reyna.

Lilja yfirgaf Vinstri græn vegna þess að hugmyndir hennar í efnahagsmálum fengu ekki stuðning innan flokksins og hafa reyndar hvergi notið hylli. Hún hefur allt kjörtímabilið haldið því fram að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar muni leiða til djúprar og langvarandi kreppu með auknu atvinnuleysi og erfiðleikum fyrir heimilin í landinu. Hún hefur eins og reyndar fleiri á hverju ári spáð því að fjárlög komandi árs muni ekki ganga eftir heldur leiða til enn meiri vanda og jafnvel hruns þess velferðarkerfis sem við viljum standa vörð um. Gárungar segja að ræður hennar á Alþingi séu flestar þannig upp byggðar að í inngangi sé því lýst hvað lífið sé vont, í meginmálinu séu færð rök fyrir því að það eigi eftir að versna og í lokaorðunum er svo boðaður sársaukafullur dauðdagi fyrir okkur öll ef ekki verður farið að hennar ráðum. Auðvitað er þessi lýsing alls kostar rétt og auðvitað er lífið ekki svona eins og allir vita.

Rétt ákvörðun að klára Hörpuna

Lagt var af stað með byggingu tónlistarhússins Hörpu á veikum grunni. Peningarnir sem átti að nota til framkvæmdanna reyndust þegar til kom vera froðupeningar góðærisins sem hvergi voru teknir gildir. Þegar svo allt hrundi í hausinn á okkur haustið 2008 stóðum við frami fyrir því að hætta við allt saman og borga af skuldum hálfbyggð tónlistarhúss eða ganga til verks og klára byggingu nýs tónlistarhúss sem standa myndi til langrar framtíðar. Síðari kosturinn var sem betur fer fyrir valinu með samkomulagi á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins. Kostnaður við húsið nam á endanum um 28 milljörðum króna. Það er nánast sama og brúttóverðmæti loðnuvertíðarinnar sl. vetur sem var ein besta loðnuvertíð til marga ára.

192 á hæð og yrkir ljóð

Stöðugt koma upp nýir og nýir fletir á máli risafyrirtækisins Beijing Zhongkun Investment Group Co sem hefur sýnt mikinn áhuga á Íslandi. Nú er komið í ljós að einn aðaleigandi þess, Huang Nubo að nafni, mun vera 192 sentimetrara á hæð og á að hafa ort sitt fyrsta ljóð 13 ára gamall.

HÁABÁT ÐATT?

Úrelt fyrirkomulag við innsetningu forseta

Ólafur Ragnar Grímsson verður settur í embætti forseta Íslands í fimmta sinn í dag. Það er að mínu mati úrelt fyrirkomulag að forseti sé settur í embætti í Alþingishúsinu og lagt sé að þingmönnum að vera viðstaddir klæddir í kjól og hvítt. Hér er ekki þinglega athöfn að ræða og þingmönnum ber engin skylda til að vera við innsetningu forseta í embætti. Nær væri að innsetningin færi fram á Þingvöllum að viðstöddum öllum þeim sem vildu vera þar til vitnis eða jafnvel í Þjóðmenningarhúsinu sem notað hefur verið til ýmissa stórviðburða sem skráðir verða á spjöld sögunnar.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur nánast hótað því að afnema þingræði á Íslandi þegar honum hentar svo að gera og talað mjög fjálglega um vald forseta. Í því ljósi er það meira kaldhæðnislegt að hann skuli settur í embætti í sjálfu þinghúsinu sem hýsir elsta þjóðþing í heimi.

Varið land rumskar til lífsins

Einu sinni var til félagsskapur (og er kannski enn til?) sem hét „Samtök um vestræna samvinnu“. Tilgangur samtakanna var að „halda uppi baráttu gegn andstæðingum NATO, hernámsandstæðingum, yfirráðastefnu kommúnistastjórnar Sovétríkjanna fyrrverandi og yfirleitt benda á nauðsyn þess að lönd í Norður-Evrópu væru í varnarbandalagi.“ Þetta voru lengst af lokuð samtök vegna þess að „menn vildu ekki fá yfirlýsta hernámsandstæðinga inn í raðir félagsmanna eða á fundi og ekki heldur starfsmenn sovéska sendiráðsins“.

Svo var líka einu sinni til félagsskapur (og er kannski enn til?) sem hét „Varið land“. Tilgangur félagsins var að tryggja viðvarandi hersetu bandaríkjahers á Miðnesheiði og „efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta og vinna að kynningu og samstarfi vestrænna þjóða með áherslu á stefnu og störf Atlantshafsbandalagsins“.

Leiðindi, leiðindi, leiðindi ...

Góðar fréttir eiga erfitt uppdráttar á Íslandi. Okkur virðist tamara að líta inn í myrkrið og sækja næringu í leiðindi. Á undanförnum vikum hefur verið af nógu að moða af jákvæðum fréttum fyrir þá sem þeirra vilja njóta. Dæmi um það er minna atvinnuleysi en gert var ráð fyrir, verðbólgan á hraðari undanhaldi en búist var við, álganing skatta bendir til þess að hagur heimila sé að byrja vænkast aftur og ýmsar aðgerðir stjórnvalda til að dreifa byrgðum Hrunsins áhafi tekist auk þess sem flestir hagvísar sýna fram á betri stöðu og almennt aukin umsvif víðast hvar í samfélaginu. Margar stórar framkvæmdir eru við það að hefjast sem skapa munu mörg störf og auka tekjur. Atvinnulífið er að taka hressilega við sér, sjávarútvegurinn gengur betur en nokkru sinni áður, ferðamannaiðnaðurinn ekki síður auk þess sem bjartara er framundan hjá öðrum iðngreinum m.a. vegna þeirra framkvæmda sem framundan eru, t.d. við vegagerð og byggingar. Ríkisreikningur sýnir að stjórnvöld eru á réttri leið við að snúa nærri gjaldþrota ríkissjóði í sjálfbæran rekstur og endurgreiðsla á lánum sem tekin voru vegna Hrunsins er hafin.

Deloitte enn í ruglinu

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte er reglulega staðið að ótrúlegum rangfærslum í málflutningi sínum. Skemmst er að minnast athugasemda þeirra við frumvarp um veiðigjöld sl. vor sem stóðust illa skoðun svo ekki sé fastara að orði kveðið og voru meira og minna hraktar svo varla stóð steinn yfir steini í málflutningi fyrirtækisins.

Í byrjun árs hélt talsmaður Deloitte því fram á fundi Viðskiptaráðs um efnahagsmál að Írar hafi farið allt aðrar leiðir en Ísland við að ná tökum á efnahagslífinu og náð mun betri árangri með hóflegri skattlagningu, öfugt við skattabrjálæðið sem sagt er að ríki hér á landi. Allt reyndist þetta tóm vitleysa þegar betur var skoðað og auðvelt að hrekja.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS