Stenst ekki skoðun

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra gerir ekki miklar athugasemdir við stórfelldar vöruhækkanir að undanförnu. Reyndar ber hann blak af þeim fyrirtækjum sem lengst ganga og kennir heimsmarkaðsverði á hrávörum og vogunarsjóðum um. Nema hvað?
Skoðum þetta aðeins betur.

Úrtölumennirnir höfðu rangt fyrir sér

Eins og margir muna hrundi allt íslenska bankakerfið haustið 2008. Seðlabankinn sjálfur fór á hliðina og fyrirtæki og heimili fóru í þrot þúsundum saman. Ísland  einangraðist á alþjóðavettvangi, rúið öllu trausti og fæstir trúðu því að landið myndi ná sér aftur á strik.
Í hópi úrtölumanna voru forystumenn núverandi ríkisstjórnar sem dag hvern, organdi af bræði, reyndu að draga kjarkinn úr þjóðinni og telja henni trú um að allt væri verra en það þyrfti að vera og myndi bara halda áfram að versna.
Á ráðstefnu Í MARK sem haldin var í dag kom fram að landsframleiðsla á Íslandi væri nú áþekk því sem var um það leyti sem bankakerfið hrundi haustið 2008. Það kom jafnframt fram að bataskeiðið hafi hafist í ársbyrjun 2010, hægfara í byrjun, en síðan vaxið ásmegin og hafi á árinu 2013 verið með mesta móti í samanburði við önnur lönd.

Ásættanleg niðurstaða?

Frá sjónarhóli atvinnurekenda hlýtur það að þykja ásættanleg niðurstaða kjarasamninga að horfa upp á forystufólk verkalýðshreyfingarinnar hnakkrífast um þá í fjölmiðlum.

 

Réttur maður á röngum stað

Enginn er góður í öllu.
Það er t.d. ekkert víst að góður netamaður verði góður skipstjóri og öfugt. Góður skólastjóri er ekkert endilega góður kennari. Gjaldkeri þarf ekki að vera efni í góðan bankastjóra. Það er ekki ávísun á góðan útvarpsstjóra að hafa verið vinsæll þáttagerðarmaður. Milljarðamæringur er ekkert endilega betri ráðherra en sá sem hefur þurft að basla fyrir brauðinu.
Sitt er hvort gæfa eða gjörvileikur.
Getur verið að óþarflega margir séu að fást við eitthvað sem þeir eru ekkert endilega góðir í og aðrir myndu gera betur?
Allir eru jú góðir í einhverju.

Karíus og Baktus íslenskrar náttúru

Frá því framsóknarflokkurinn tók yfir umhverfisráðuneytið hefur Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra aldrei tekið málstað íslenskrar náttúru. Þvert á móti hefur hann frá fyrsta degi tekið afstöðu gegn náttúrunni og gengið erinda sérhagsmuna þvert á almannahagsmuni.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra er með aðsetur í sama húsi og umhverfisráðherrann. Hún vill að Landsvirkjun selji raforku á hvaða verði sem er svo draumur hennar um álver í Helguvík verði að veruleika. Henni er sama hvernig orkunnar verður aflað og hverju þarf að fórna til.
Rétt eins og Sigurður Ingi.

Í öruggum höndum Guðna

Það fylgir því ákveðin öryggistilfinning að vita að íslensk fyrirtæki eru reiðubúin að reiða fram háar upphæðir til að vernda okkur frá útlendum mat eins og Mjólkursamsalan hefur gert undir forystu Guðna okkar Ágústssonar framkvæmdastjóra afurðarstöðva í mjólkuriðnaði. Það skiptir ekki öllu máli að það erum við sjálf sem greiðum verndargjaldið í gegnum álagningu á vörum og með framlagi til Guðna og félaga á fjárlögum.
Aðalatriðið er að það er til fólk sem vakir yfir okkur og ver okkur fyrir því sem vont er.
Hvað sem það kostar.
Það hlýtur að vera almenn sátt um það.

Leiðrétting: Skilja mátti á færslunni hér að framan að Guðni Ágústsson stjórnaði Mjólkursamsölunni. Það gerir hann auðvitað ekki heldur er hann framkvæmdastjóri afurðastöðva í mjólkuriðnaði.

Kjarasamningarnir í uppnámi?

Forsætisráðherra sagði í áramótaávarpi sínu að hækka þyrfti lægstu laun í landinu og bæta kjör þeirra verst settu. Þetta er alger viðsnúningur frá því fyrir jól þegar ríkisstjórnin hafnaði kröfum ASÍ um aðkomu ríkisins að því að bæta hag þessa hóps eins og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, bendir réttilega á.
Í því ljósi hlýtur það að vera eðlilegt að annað af tvennu gerist í framhaldinu:
1: Að atkvæðagreiðslu um kjarasamningana verði frestað og ríkisstjórninni þannig gefið svigrúm til að koma að þeim að nýju.
2: Að samningsaðilar hvetji launafólk og atvinnurekendur til að fella samningana og sest verði að nýju við samningaborðið - með stjórnvöldum.

Eintóna ræðuhöld

Formenn stjórnarflokkanna stóðu í vegi fyrir öllum aðgerðum til varnar kreppunni á síðasta kjörtímabili. Þeir drógu Alþingi niður á áður óþekkt plan í stjórnlausri pólitískri heift sinni gegn ríkisstjórn vinstriflokkanna. Þeir héldu því fram að ríkisstjórnin hefði valdið þjóðinni meiri skaða en Hrunið sjálft og reyndu hvað þeir gátu til að draga kjarkinn úr þjóðinni. Bessastaðabóndinn og Morgunblaðið sáu svo um að bergmála bölbænunum til þjóðarinnar og á alþjóðavettvangi.
Nú er annan hljóð komið í strokkinn.
Morgunblaðið segir frá því á síðasta degi ársins að kreppunni hafi í raun lokið árið 2010 en það ár hafi orðið verulegur og jákvæður viðsnúningur í samfélaginu.

Hringekjan

Sagt var frá því í fréttum RÚV í gær að á næsta ári muni vaxtabætur skerðast hjá hjónum sem eru með meira en 580 þúsund í tekjur á mánuði og lækka í hlutfalli við hækkandi tekjur. Þetta er sami hópurinn og stóru millifærslunni er beint að eins og bent hefur verið á. Það hefur þegar komið fram að raunverulegt umfang millifærslunnar er innan við 60 mia.kr. þegar allt hefur verið talið til og mun fara til um þriðjungs íslenskra heimila. Lækkun vaxtabóta á þennan hóp mun síðan enn draga úr áhrifum aðgerðanna.
Það lítur því út fyrir að farin sé af stað risastór hringekja peningaflutninga frá einum stað til annars sem á endanum mun ekki hafa nein merkjanleg jákvæð áhrif á lífskjör almennings.

Ár og einn dagur án Dorritar

Í dag er liðið ár og einn dagur frá því að Dorrit Moussaieff flutti lögheimili sitt frá Íslandi til Bretlands. Þótt oft hafi verið minna tilefni til veisluhalda og glasaglamurs á Bessastöðum fór þessi athöfn hins vegar fram í kyrrþey. Ástæða lögheimilisflutningsins var að sögn að koma forsetafrúnni undan því að greiða skatta á Íslandi.
En þjóðin er samt ánægð með Dorrit sína. Hún er skemmtileg og hress og ólöt að gleðja fólk með geislandi brosi sínu og framkomu sem heillar alla upp úr skónum. Dorrit virðist annt um íslenska þjóð og vill henni allt gott, fyrir utan að leggja í sameiginlegt púkk með sköttum af tekjum sínum og eignum. Hún vill að innfæddir sjái um sig sjálfa án hennar aðstoðar.

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS