Ótrúleg afkoma í sjávarútvegi

Hagnaður fyrirtækja í fiskveiðum- og vinnslu fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (EBITDA) minnkaði um 100 m.kr. milli áranna 2011-2012, eða úr 79,8 mia. kr. í 79,7 mia. kr. Þetta má sjá í skýrslu Hagstofunnar um hag veiða og vinnslu. Þetta gerist þrátt fyrir að veiðigjöld hafi ríflega tvöfaldast á milli ára, úr 3,5 mia. kr. í 7,5 mia. kr. og sagt var að myndi draga allan þrótt úr greininni.
Það er fagnaðarefni að sjá tölur eins og þær sem hér koma fram. Miklar sveiflur hafa einkennt afkomu sjávarútvegsins á undanförnum áratugum og greinin mun áfram búa við miklar sveiflur þótt þær verði ekki aftur eins djúpar og áður.
Það eru margar ástæður fyrir góðri afkomu sjávarútvegsins. Nefna má mikið fall krónunnar í Hruninu, nýjar og verðmætar fisktegundir í lögsögunni, betri nýtingu afurða og verðmætari framleiðslu og svo auðvitað færa stjórnendur og vel rekin fyrirtæki.
Ríkisstjórn hægriflokkanna ákvað sl. sumar að lækka veiðigjöld á botnfiskútgerðir en hækka þær á uppsjávarveiðar. Sú ákvörðun kostar ríkissjóð um 10 mia. kr. á einu og hálfu ári og er ein meginástæða þess mikla niðurskurðar sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að verði í fjárlögum næsta árs.
Ég er ekki viss um að útgerðarmönnum sé skemmt eða þeir séu beinlínis ánægðir með að þeim sé stillt upp sem andstæðingum þróunarhjálpar og desemberuppbótar atvinnuleitenda, svo dæmi séu nefnd. Þannig er það þó gert eins og lesa má í tillögum meirihluta fjárlaganefndar og heyra má í umræðunum á Alþingi um fjárlög næsta árs. Ég þekki að minnsta kosti nokkra slíka sem vildu frekar kjósa að umræðan um greinina væri með öðrum hætti.
Af hverju hefur engum dottið í hug að spyrja þá hvað þeim finnst?