Einhverskonar heimsmet

Það liggur nú endanlega fyrir að stóra loforð framsóknarflokksins um 240-300 mia.kr. lækkun á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána hefur snúist upp í andhverfu sína. Í stað 240-300 mia.kr. lækkun sem vondir menn í útlöndum áttu að borga okkur datt sú upphæð niður í 80 mia.kr. sem við eigum að borga okkur sjálf. Í stað 80 mia.kr. sem talað var um á yfirlýstu sviði Hörpunnar fyrir þrem vikum er nú talan komin niður í um 60 mia.kr. vegna annarra þátta sem þarf að taka tilliti til. Í stað lækkunar á höfuðstól lána er nú talað um að borga fyrst vanskil, vexti, jöfnunarreikninga og fleira áður en kemur að höfuðstólnum. Í stað lækkunar skulda heimilanna í landinu er nú ljóst að innan við helmingur heimila í landinu kemst í færi við þessa aðgerð. Í stað þess að leysa vanda, á að setja tugi milljarða króna út í samfélagið án þess að nokkur vandi verði leystur.
Enn hefur enginn aðili, innlendur né erlendur, talið þessa aðgerð viturlega eða til þess gerða að bæta lífskjörin í landinu. Þvert á móti benda allir á hið gagnstæða.
Það er líka athyglisvert að sjá hvaða augum almenningur lítur aðgerðina. Þeir efnameiri fagna á meðan svartsýnin eykst hjá þeim tekjulægstu.
Var það kannski alltaf planið?
Það er ekki aðeins að stærsta kosningaloforð sögunnar hafi verið svikið til botns heldur hefur því verið snúið á hvolf og efnt með öfugum formerkjum.
Það hlýtur að vera einhvers konar heimsmet.