Svar forsætisráðherra við fyrirspurn um stóru millifærsluna er eiginlega of galið til að láta sem ekkert sé. Í svari sínu segir ráðherrann: „Forsætisráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum til að svara þessari fyrirspurn. Enginn fyrirliggjandi gagnagrunnur getur metið áhrif leiðréttingarinnar á einstaka tekju-, skulda- og greiðslubyrðishópa með nægjanlega nákvæmum hætti, ekki hvað síst vegna samspils við fyrri aðgerðir sem dragast frá leiðréttingunni.“
Til að rifja upp forsögu málsins stendur til að millifæra 80 mia.kr. úr ríkissjóði til tæplega helmings fjölskyldna í landinu á næstu fjórum árum. Miðað við svar ráðherrans liggur sem sagt ekkert fyrir til grundavallar þessari ákvörðun og ekkert mat á áhrifum þess að færa þessa gífurlegu fjármuni frá einum stað til annars. Engar upplýsingar um hvort og þá hverra vanda þetta kann að leysa eða hvort einhver vandi verður yfir höfuð leystur.
Miðað við umfang málsins og stærðargráðuna getur þingið ekki látið þetta svar duga. Til þess er of mikið í húfi fyrir okkur öll.
En það hlýtur að vera mikil lífsreynsla að vera fjármálaráðherra í svona ríkisstjórn.