Hörð átök framundan

Kjarasamningar eru í fullkomnu uppnámi eftir að stór hluti launafólks felldi nýgerða kjarasamninga. Þessi niðurstaða mun ekki aðeins hafa áhrif á almenna launamarkaðinn heldur og ekki síður á kjarasamningagerð opinberra starfsmanna. Sú staðreynd að samningar eru felldir eða samþykktir naumlega af launamönnum en samþykktir með 98,3% atkvæða atvinnurekenda mun ekki verða til að auðvelda verkið.
Á síðasta kjörtímabili tókst að halda friðinn á vinnumarkaðinum þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu. Þar lögðust allir á eitt, atvinnurekendur, launafólk og ríkisvaldið. Að þessu sinni vantaði mikið upp á að ríkið legði sitt af mörkum og miðað við yfirlýsingar forsætisráðherra er ekkert sem bendir til þess að breyting verði þar á.
Það stefnir því allt í harða kjarabaráttu á næstu misserum. Hún mun að stórum hluta  snúast um að knýja ríkisstjórnina til að gera það sem hún vill ekki gera, þ.e. að bæta kjör þeirra lægst launuðu.
Það er frekar aumt að þannig skuli það vera.