Bjarni ýjar að landráðum

Það er til merkis um mikla vanstillingu þegar ráðherrar ýja að því að þingmenn gangi erinda erlendra aðila á Alþingi. Það er næsta stig við ásökun um landráð.
Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, féll í þennan pytt í morgun þegar hann gaf  í skyn að Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, léti umsvifamikla kröfuhafa reka sig upp í ræðustól Alþingis til að spyrja ráðherrann spurninga.
Þetta eru ekki aðeins ómakleg ummæli heldur líka ómerkileg og fara Bjarna illa. Hann hefur vonandi beðið þingmanninn afsökunar á þessum ummælum sínum.
Forseti þingsins, sem nú er tíðrætt um að auka virðingu þingsins, hlýtur að hafa veitt formanni sínum tiltal og tekið af honum loforð um að gera þetta aldrei aftur.