Sátt um gjörbreytta þjóðfélagsgerð?

Fyrir tveim dögum lýsti forsætisráðherra þeirri skoðun sinni að rangt væri að beita skattkerfinu til að jafna kjör í landinu, þ.e. bæta kjör þeirra lægst launuðu. Fram að þeim degi hafði enginn, utan sjálfstæðisflokksins, vogað sér að koma fram opinberlega með slíkar skoðanir. Þá undanskil ég auðvitað formann fjárlaganefndar.
Í yfirlýsingu forsætisráðherra felst að það eigi hvorki að afla tekna né ráðstafa þeim til að jafna eða bæta kjör í landinu. Skattar eiga þá samkvæmt þessu ekki að fara hækkandi eftir launum, heldur vera flatir og jafnir á alla, óháð tekjum og eignum. Eins og þeir voru fyrir Hrun. Forsætisráðherrann vill  ekki heldur að sköttum sé ráðstafað í félagslegum tilgangi, t.d. til barna- eða vaxtabóta, í leigubætur eða félagslegt húsnæði, í fæðingarorlof eða til námsmanna. Svo nokkur dæmi séu talin til.
Sumt af þessu sáum við glitta í við afgreiðslu fjárlaga undir lok síðasta árs. Og það var bara byrjunin, eins og formaður fjárlaganefndar benti á og forsætisráðherrann hefur nú ítrekað. En við urðum líka vitni að því að kjör sumra voru bætt í gegnum skattkerfið, m.a. með lækkun á tekjuskatti, afnámi auðlegðarskatts, lækkun á VSK í ferðaþjónustu og lækkun veiðigjalda.
Satt best að segja átti ég von á því að fjölmiðlar, stéttarfélög, stjórnmálamenn og almenningur myndi lýsa skoðunum sínum á þessum orðum ráðherrans. En það varð eitthvað lítið um það.
Forsætisráðherra framsóknarflokksins boðar með yfirlýsingu sinni algjöra kollsteypu á þeirri þjóðfélagsgerð sem við þekkjum og erum flest sammála um.
Er öllum sama um það?