Tími stórra ákvarðana í Valhöll

Framganga Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í fjölmiðlum um helgina kemur þeim ekki á óvart sem þurftu að eiga samskipti við hann á síðasta kjörtímabili. Það var lítið hægt að gera í því þá. Nú kann það hins vegar að hafa pólitískar afleiðingar að opinbera sig með þessum hætti frammi fyrir alþjóð og verandi í forystuhlutverki í ríkisstjórn. Forsætisráðherrann virðist ekki hafa minnsta grun um hverjar afleiðingar orða hans geta orðið, hvað þá að hann viti yfir höfuð hvað hann segir um mörg stærri mál.
Það er greinilegt að sjálfstæðismönnum líður ekki vel undir stjórn þessa manns svo ekki sé meira sagt. Bjarni Benediktsson á þó ekki marga kosti í stöðunni. Í fyrsta lagi gæti hann farið fram á að sjálfstæðisflokkurinn taki við forystuhlutverki í ríkisstjórninni, enda ráði formaður framsóknarflokksins augljóslega ekki við það. Það myndi væntanlega leiða til stjórnarslita. Þriggja flokka stjórn sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna er tæplega inni í myndinni, aðallega vegna þess að þessir tveir flokkar munu frekar vilja kosningar fljótlega í stað þess að bera ábyrgð á sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn. Björt framtíð og Píratar eru ekki á þeim stað í tilverunni að teljast raunhæfur kostur í þessu sambandi.
Óbreytt staða er útilokuð fyrir sjálfstæðisflokkinn. Hann getur ekki lengur einn borið ábyrgð á því ástandi sem er hjá framsóknarflokknum og þar með ríkisstjórninni. Kosningar á árinu gætu hugsanlega skilað flokknum til baka því fylgi sem fór frá honum yfir til framsóknar á lokasprettinum fyrir kosningarnar vorið 2013. Það er þó ekki víst.
Hvernig sem allt hvolfist og fer þá verður Bjarni Benediktsson að taka stjórnina í sínar hendur ef hann ætlar ekki að sökkva í pólitískt hyldýpi með félaga sínum í forsætisráðuneytinu. Og það má ekki verða neitt hálfkák.
Tími stóru ákvarðananna er runninn upp í Valhöll.