Gamla aðferðin

Það er ekki oft sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ taka höndum saman um að vinna sameiginlegar tillögur um lausn stórra samfélagslegra deilumála. Það ákváðu þessi samtök þó að gera um kosti og galla umsóknar Íslands að ESB. Búist er við því að tillögur þeirra verði fljótlega birtar í formi ítarlegrar skýrslu um málið.
Samanlagt má ætla að þessir aðilar starfi í umboði meirihluta þjóðarinnar, þ.e. atvinnurekenda og stærsta hluta launþega. Það ætti því að öllu eðlilegu að hafa talsvert vægi sem þessi samtök hafa fram að færa í svo stóru máli. En það eru auðvitað ekki allir sammála því, eins og t.d. Gunnar Bragi Sveinsson sem segir að þetta sé bara ekki hans mál. Sem er vonandi rétt. En þetta er mál þjóðarinnar sem Gunnar Bragi og félagar hans í báðum framsóknarflokkunum hafa sagt skilið við.
Þeir telja sig ekki þurfa neina leiðsögn.
Þeir nota bara gömlu aðferðina.
Kunna ekki annað.