Norðanmaðurinn knái, Magnús Halldórsson og viðskiptablaðamaður á 365 miðlum, skrifar grein á visi.is í gær um ríkisfjármálin. Þar tekur hann undir niðurskurðarhugmyndir formanns sjálfstæðisflokksins sem honum finnst vera fullkomlega eðlilegar. Jafnframt lítur hann svo á að viðbrögð stjórnarliða einkennist fyrst og síðast af því að það er kosningavetur framundan. Lesa má úr skrifum hans að ef svo væri ekki myndu vinstrimenn fara sömu leið og sjálfstæðisflokkurinn í blóðugum niðurskurði í opinberum rekstri, lokun sjúkrahúsa og skóla og fjöldauppsagna starfsfólks.
Þetta er alrangt hjá Magnúsi Halldórssyni.
Allt þetta kjörtímabil hefur tekist harkalega á um tillögur hægrimanna um niðurskurð og leið vinstrimanna um blanda leið tekjuöflunar og samdráttar í útgjöldum. Sú deila stendur enn yfir eins og sjá má á viðbrögðum hægrimanna við nýjum tekjuöflunarleiðum, hvort sem um er að ræða veiðigjöld eða þrepaskipt skattkerfi og allt þar á milli. Hægrimenn vilja frekar draga úr útgjöldum en auka tekjurnar.
Þessar deilur draga skýra línu á milli vinstri og hægri í stjórnmálum og hafa ekkert með kosningavetur að gera – nema þá helst til að skerpa þessar línur.
Magnús Halldórsson stingur í grein sinni upp á „nýrri leið“ til að létta undir með ríkisfjármálunum, sem er að selja hluta Landsvirkjunar til að afla tekna og draga úr skuldum. Þetta hljómar kunnuglega fyrir okkur sem enn viljum muna eftir sölu bankanna, símans og annarra eigna þjóðarinnar sem seldar á sínum tíma. Það var gert samkvæmt fyrirfram mótaðri stefnu hægriflokkanna í þeim tilgangi nýta tekjurnar til „ …að greiða niður skuldir ríkissjóðs, til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið.“
Eru vítin ekki til að varast þau?