Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte er reglulega staðið að ótrúlegum rangfærslum í málflutningi sínum. Skemmst er að minnast athugasemda þeirra við frumvarp um veiðigjöld sl. vor sem stóðust illa skoðun svo ekki sé fastara að orði kveðið og voru meira og minna hraktar svo varla stóð steinn yfir steini í málflutningi fyrirtækisins.
Í byrjun árs hélt talsmaður Deloitte því fram á fundi Viðskiptaráðs um efnahagsmál að Írar hafi farið allt aðrar leiðir en Ísland við að ná tökum á efnahagslífinu og náð mun betri árangri með hóflegri skattlagningu, öfugt við skattabrjálæðið sem sagt er að ríki hér á landi. Allt reyndist þetta tóm vitleysa þegar betur var skoðað og auðvelt að hrekja.
Nú kemur þessi sami talsmaður Deloitte fram í fréttum RÚV og fullyrðir að breytingar á auðlegðarskatti megi rekja til þess að fjöldi auðugra Íslendinga hafi flutt úr landi eftir breytingarnar og auðugir Íslendingar sömuleiðis út fyrir landssteinana vegna lægri skattlagningar á vaxtatekjur og arðgreiðslur til einstaklinga. Það reyndist síðan eins og fleira sem frá þessu fyrirtæki vera í grundvallaratriðum rangt eins og ríkisskattstjóri hefur bent á. Staðreyndirnar eru þessar:
Af þeim sem greitt hafa meira en 10.000 krónur í auðlegðaraskatt hafa 173 flutt af landinu en aðeins örfáir þangað sem skattarnir eru lægri.
Af þeim sem greiddu meira en 100.000 þúsund krónur í auðlegðarskatt hafa 62 flutt af landi brott og fæstir til landa þar sem skattarnir eru lægri.
Frá því í fyrra hafa 42 einstaklingar dottið út af listanum yfir þá sem greiða auðlegðarskatt, af þeim eru 35 látnir og sjö flutt til útlanda. Í heild greiddu þessir 42 minna en tíu milljónir í auðlegðarskatt í fyrra – samtals.
Staðreyndir virðast hinsvegar ekki þvælast mikið fyrir talsmönnum Deloitte frekar en áður. Hvort það er vísvitandi gert eða ekki skal ósagt látið. Það bendir þó margt til þess að pólitísk sjónarmið stjórnenda fyrirtækisins beri fagmennskuna ofurliði.