Pólitískt sjálfsmark hjá Bjarna!

Það er erfitt að spila vörn. Varnarmistök eru oft afdrifarík og geta skipt sköpum um úrslit leikja. Vörnin opinberar því veikleika liða umfram annað.

Þetta á líka við í stjórnmálum. Það kemur fram í því þegar stjórnmálamenn koma sér undan rökræðunum og fara frekar í manninn en málefnin. Formaður sjálfstæðisflokksins opinberaði þannig í hádegisfréttum að veikleiki flokksins er lélegt vörn. Það gerði hann með því að koma sér undan málefnalegri rökræðu og  kalla pólitíska andstæðinga sína vitleysinga.

Bjarni Benediktsson skoraði því pólitískt sjálfsmark með þeim ummælum sínum.

Ömurð

Ömurð er hugtak sem mér skilst að notað sé í svo til sömu merkingu og ömurlegt. Þó ekki alveg. Ömurð er líklega nærri því að vera dapurleg upplifun eða aðstæður sem maður lendir í. Mér leið þannig undir umræðum á Alþingi í gær um væntanleg Vaðlaheiðargöng. Þær voru ömurð  að stærstum hluta.

En svo verður alltaf eitthvað til að gleðja mann, líkt og þetta hér sem einhver gaukaði að mér um miðjan dag. Skora á alla láta það eftir sér að horfa a.m.k. á fyrstu þrjár mínúturnar og athuga hvort það verður ekki til að gera daginn skemmtilegri.

Sökudólgarnir fundnir

Hvað ætli Bíldudalur, Eskifjörður, Flateyri, Súðavík, Grundarfjörður, Króksfjarðarnes og Fáskrúðsfjörður eigi sameiginlegt?

Jú, það voru íbúar þessara staða sem settu bankakerfið á hausinn. Þangað má rekja fall íslenska bankakerfisins. Þar eru breiðu bökin sem réttu eiga að bera afleiðingar Hrunsins á herðum sínu. Sökudólgarnir fundust loksins í þorpum og bæjum víða um land þegar við héldum flest að þeir væru í þéttbýlinu á suðvestur horni landsins.

Eða hvað?

Það mætti allavega ætla að svo sé þegar litið er til rekstrarhagræðingar Landsbankans og kynntar voru fyrr í dag.

Til hamingju að það, Landsbanki allra landsmanna!

Samherja skjall

Í dag náðist samkomulag á þinginu við stjórnarandstöðuna um að ljúka umræðum um  þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Þegar umræðunni lauk seinnipartinn í dag hafði hún staðið nær linnulaust yfir frá því síðasta miðvikudag. Á móti samþykktu stjórnarliðar að vísa frumvarpi um náttúruvernd (akstur utan vega o.fl.) til nefndar aftur.

Ég nenni ekki að leggjast yfir það hvað margir klukkutímar eru að baki í ræðuhöldum og sýndarandsvörum (samflokksmenn svara hver öðrum) eða fundarstjórn forseta. Veit bara að það var allt of mikið af öllu í þeim efnum og miklum tíma sóað til lítils.

Annars  notaði Halldór Blöndal annað og skemmtilegra orð yfir sýndarandsvörin þegar hann var forseti þingsins auk þess að hafa skýra afstöðu til slíkra ræðuhalda að öðru leiti.

Birtan við enda ganganna ..

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar eru ólatir við að halda því að þjóðinni að hér sé allt að fara fjandans til ef ekki farið þangað nú þegar. Þeir virðast hafa tileinkað sér hlutskipti þess sem stendur í gangamunanum eftir langa myrkragöngu og heldur áfram að stara inn í myrkrið í stað þess að njóta birtunnar fyrir utan.

Þeim er ómögulegt að viðurkenna að tekist hefur að snúa hlutunum hér á landi til betri vegar með áþreifanlegum hætti og svo eftir er tekið um allan heim.

Um það er m.a. fjallað á forsíðu Wall Street Journal í dag.

Baráttan gegn þjóðinni

Dagurinn í gær var vondur fyrir framsóknar-og sjálfstæðismenn á Alþingi. Daginn hófu þau á því að halda áfram málþófi sínu gegn því að þjóðinni verði heimilt að segja álit sitt á drögum að nýrri stjórnarskrá. Það er ekki góður málstaður að verja eins og heyra má á ræðum þingmanna.

Um miðjan dag máttu þau svo kynningu á framkvæmda- og fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára sem fór illa í þessa tvo systurflokka. Þeir gátu ekki tekið því að nú hafi skapast færi fyrir svo umfangsmiklar aðgerðir sem í áætluninni felast. Enda hafa flokksmenn þeirra spáð því látlaust árum saman að hér á landi væri  allt að fara fjandans til. Svo fúlir voru forystumenn þeirra að þeir treystu sér ekki til að mæta til fundar við stjórnarliða til að fara yfir áætlunina og ræða málin.

Það var annar tónn í fulltrúum vinnumarkaðarins sem funduðu í Iðnó fyrr í dag um málið með fulltrúum stjórnvalda. Það var ekki fýlan í þeim.

Heldur framsókn að fólk sé fífl?

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni hefur ekki tekist að auka fylgi framsóknarflokksins. Þvert á móti er flokkurinn heldur á undanhaldi og virðist ekki ætla að ná sér á strik þrátt fyrir þessa voðalegu ríkisstjórn sem nú situr að mati formannsins.

Ég velti því fyrir mér hvort formaðurinn og forusta flokksins reyndar öll, hafi í raun metnað til að efla flokkinn og fera hann að því sem ég veit að margir góðir og gegnir framsóknarmenn óska sér. Hvaða formaður annar en formaður framsóknarflokksins leggur t.d. fram jafn kjánalega tillögu í jafn stóru máli. Og þá þessa tillögu sem þingflokksformaðurinn stendur að.

Það var einu sinni sagt að fólk væri fífl.

Ég ætla að vona að þetta undarlega framlag framsóknarflokksins til undirbúnings nýrrar stjórnarskrár sé ekki merki um slíka afstöðu flokksins til þjóðarinnar.

Minnkandi atvinnuleysi

Á vef Vinnumálastofnunnar má sjá að atvinnuleysi hér á landi mælist 6,5% í apríl sl. og hefur lækkað um 0,6 prósentustig á milli mánaða. 6,5% er of há tala. Um það verður ekki deilt. Þó er þetta minnsta atvinnuleysi frá Hruni og það minnsta sem mælist á norðurlöndum að Noregi undanskildu. Samkvæmt upplýsingum OECD mældist atvinnuleysið í Danmörku 8,1%, Finnlandi 7,5% og Svíþjóð 7,3%. Noregur er sem fyrr í sérflokki hvað þetta varðar en þar mældist atvinnuleysið 3,2% í febrúar.

Jarðgöng eða dauði!

Oddskarðsgöng sem eru 640 metra löng, voru opnuð árið 1977, fyrir 35 árum. Þau hafa án efa þótt góð samgöngubót á sínum tíma. Oddskarðsgöng eru hinsvegar barn síns tíma og það er skammarlegt að ekki hafi verið ráðist í vegabætur í þeirra stað fyrir lifandi löngu. Það hefði verið upplagt að leggja af stað í þá vegferð á þeim tímum sem nóg átti að vera til af fjármunum til slíkra framkvæmda. En við vitum hvernig það fór. Ríkissjóður var tæmdur og þjóðin kafkeyrð í skuldir langt fram í tímann.

Það breytir hinsvegar engu um þörf fyrir bættar samgöngur, m.a. í stað Oddskarðsganga. Því fær ekkert breytt.

Nú skilst mér að forseti bæjarstjórnar í Fjarðabyggðar hafi hótað því að það muni „rigna eldi og brennisteini“ ef stjórnvöld ráðast ekki undanbragðalaust í gerð nýrra jarðanga þar eystra.

Þaenebbleaþa!

Pörun á kærleiksheimilinu

Pörun er algeng á Alþingi. Sérstaklega er þó algengt að parað sé út. Sem þýðir að stjórnarandstaða og stjórnarliðar hverju sinni sjá til þess að hið pólitíska hlutfalla haldi sér í atkvæðagreiðslum þó forföll verði í öðru hvoru liðinu. Þannig sjá þingmenn til þess að verja lýðræðislega niðurstöðu kosninga um valdahlutföllin á þinginu. Þannig nýtur hvorki stjórnin þess í mikilvægum málum að ná sínu fram ef viðurkennd forföll eru hjá stjórnarandstöðunni og stjórnarandstaðan notfærir sér ekki forföll í stjórnarliðinu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að meirihlutinn nái sínu fram. Þannig gerðist það t.d. í atkvæðagreiðslum í þinginu í morgun í atkvæðagreiðslu um tillögu um skipan stjórnarráðsins sem hefur verið mjög umdeilt mál eins og allir vita.

Alþingi getur því líka verið eins og hvert annað kærleiksheimili þegar sá gállinn er á mönnum!

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS