Það er mikið rætt um óvissu á Íslandi í dag. Forsetinn segist ekki geta hætt vegna óvissu í samfélaginu, án þess að útskýra það neitt frekar. Forsetaframbjóðendur segja óvissu vera í samfélaginu sem kalli á þá frekar en aðra til að róa málin. Stjórnmálafræðingar segja mikla óvissu vera í stjórnmálum sem sé varhugavert. Skapa verði festu á þeim vettvangi að margra mati.
Um hvað er fólk að tala?
Er það einhver sérstök óvissa þó þjóðin sé að taka afstöðu til framtíðar sinnar, t.d. að búa til nýja stjórnarskrá eða velta fyrir sér kostum og göllum ESB?
Er einhver sérstök óvissa fólgin í því þegar almenningur tekur í ríkara mæli en áður þátt í opinberri umræðu og mótar sér skoðun á einstökum málum?
Er það einhver sérstök óvissa í stjórnmálum þó sjálfstæðisflokkurinn sé ekki við völd eins og vant er? Er það ekki bara fínt?
Hvað er að því þó fólk láti skoðanir sínar í ljós? Hvað er að því þó fólk takist á með málefnalegum hætti um framtíð lands og þjóðar? Hefðum við ekki betur gert það nokkrum árum fyrr – öll?
Hvað er að því þó ólga sé í samfélaginu ef rætur hennar liggja í vilja þjóðarinnar til að hafa áhrif á samfélag sitt?