Rassskellingar og typpahlaup

Nei, fyrirsögnin er ekki tekin úr refsingarhandbók sjálfstæðisflokksins. Heldur datt mér þetta í hug við lestur á tilskrifum Ómars Ragnarssonar um vægast sagt undarlega undarlega hegðun íþróttamanna. Í því tilfelli sem Ómar segir frá er um að ræða viðurkenndar rassskellingar á nýliðum í handboltalandsliði þjóðarinnar. Samkvæmt þessu er enginn viðurkenndur sem einn af „strákunum okkar“ nema að hafa hlotið duglega rassskellingu frá félögum sínum, jafnvel svo að viðkomandi er hvorki stætt né sætt í kjölfarið.

Þetta er auðvitað stórfurðulegt en samt sem áður eitthvað sem virðist hafa verið stundað og viðurkennt í íþróttum um langan tíma.

Að mati þingmanna sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn er undarlegur flokkur og allt að því hættulegur á köflum. Það var mér enn frekar en áður ljóst þegar ég rakst á þessa frétt í gærkvöldi. Þar segir frá yfirlýsingu þingflokks sjálfstæðisflokksins sem þingflokksformaður hans las upp á þinginu á laugardaginn en hafði alveg farið framhjá mér þar til nú.

Í yfirlýsingunni er því í fyrsta lagi haldið fram að ég hafi tekið nýtt skref í afsökunarbeiðni minni til þingmanns flokksins sem að mati flokksins hlýtur því að vera eitthverskonar ferli sem þeim sem verður á í messunni gagnvart honum ber að fara, skref fyrir skref það til Flokkurinn að lokum fellur sig við hana.

Ekkert slíkt hefur gerst af minni hálfu. Afsökunarbeiðni mín var fullgild og við henni tekið af viðkomandi þingmanni eins og áður hefur komið fram.

Hvað verður um Árna Johnsen?

Í fyrri nótt gerði ég þau mistök að gefa í skyn að þingmaðurinn Jón Gunnarsson væri undir áhrifum áfengis við þingstörfin. Það var hann ekki og því bað ég afsökunar á orðum mínum og dró þau til baka. Við Jón innsigluðum síðan þessa afsökunarbeiðni með handabandi eins og á að ljúka svona málum.

En því lauk ekki þannig eins og ég hélt.

Síðan þá hefur sjálfstæðisflokkurinn (og framan af framsóknarflokkurinn líka) beitt áður óþekktum refsiaðgerðum gegn pólitískum andstæðingi sínum, sem felast í því að hundsa mig í rökræðum úr ræðustól Alþingis og virða mig ekki viðlits að öðru leiti. Með ánægjulegum undantekningum þó af hálfu Ásbjörns Óttarssonar og síðar Kristjáns Þórs Júlíussonar. Jafnvel sómakærir menn úr liði sjálfstæðismanna hafa látið sig hafa það að taka þátt í eineltinu frami fyrir alþjóð. Hefði ég seint trúað því.

Salka Valka

Salka Valka er eina af skærustu perlum íslenskra bókmennta. Þegar bókin kom fyrst út, á árunum 1931-32 (í tveimur bindum) voru mikil átök og kreppa hér á landi. Rétt eins og nú. Bókin segir m.a. frá átökum milli þeirra sem lúta valdi og hinna sem valdið hafa. Rétt eins og nú og endurspeglaðist að hluta til í mótmælum Landssambands íslenskra útvegsmanna á Austurvelli í dag. Okkur þingflokksformönnum stjórnarflokkanna, mér og Magnúsi Orra Schram fannst því við hæfi að færa stjórnarformanni LÍÚ eintak af bókinni um leið og hann færði okkur ályktun mótmælafundarins við þinghúsið í dag.

Öskurkeppni í stað rökræðu

Því er haldið fram að stór hluti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja verði gjaldþrota ef frumvarp um veiðigjöld verður að lögum. Því er sömuleiðis haldið fram að með því muni allt fé sogast úr þeim fyrirtækjum sem eftir standa þannig að þau geti hvorki endurnýjað búnað eða viðhaldið sér með eðlilegum hætti.

Þessu er ég algjörlega ósammála. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að frumvarpið verði að lögum mun framlegð í sjávarútvegi verða ein sú mesta í sögu greinarinnar eins og sést á myndinni hér til hliðar.

Hversvegna fór sjávarútvegurinn ekki á hliðina á árunum 2001 – 2008? Á þeim árum var framlegð minni en hún verður á yfirstandandi ári – þó svo að veiðigjöld yrðu greidd á því ári samkvæmt því sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði gert. Ég man ekki til þess að þá hafi verið rætt um að sjómenn ættu að taka aukinn þátt í rekstrarkostnaði útgerða en þá þegar var hvað þá að þeim væri siglt til mótmæla af þeim sökum. Hvaða ástæða er þá til þess í dag þegar afgangurinn er enn meiri og upphæðirnar enn hærri?

Heimsmet í augsýn?

Þegar Ólafur Rangar hefur lokið næsta kjörtímabili sínu sem forseti þjóðarinnar verður hann kominn í hóp þeirra forseta sem setið hafa hvað lengst í embætti um veröld víða. Sem stendur er hann í 21. sæti þaulsetinna forseta, næst á undan forsetanum í Kongó og næstur á eftir kollega sínum í Gambíu. Eftir næsta tímabil verður Ólafur Ragnar líklega kominn ofar á listann, þó auðvitað megi búast við því að fleiri forsetar á hans róli vilji bæta einhverjum forseta árum í starfsferliskránna.

Svona virka hótanir

Yfirlýsing formanns kjararáðs Sjómannasambands Íslands  um að sjómenn og þá væntanlega Sjómannasambandið, styðji ólöglegar aðgerðir LÍÚ eru klassískt dæmi um hvernig hótanir geta virkað. Hann segir sjómenn óttast að „það sem rifið verði af þeim (LÍÚ) það endar illa fyrir okkar kalla (sjómenn)“ eins og hann orðar það. Í þessu felst sú skoðun Sjómannasambands Íslands (nema þetta sé persónuleg skoðun formanns kjararáðs sambandsins) að þeir (LÍÚ) eigi eitthvað sem af þeim verður rifið og „okkar kallar“ (sjómenn) muni verða refsað fyrir það af þeim. Með öðrum orðum þá virðist svo vera að Sjómannasambandið hafi beygt sig undir hótanir útgerðarmanna,  jafnvel þó svo aðgerðir þeirra séu ólögmætar.

Útgerðarmenn og sjómenn eiga í kjaradeilu sem vísað hefur verið til sáttasamherja. Þar hafa útgerðarmenn krafist launalækkunar hjá sjómönnum og þeir taki þannig aukinn þátt í olíukostnaði en þegar er.

Það ætti ekki að vera erfiður þröskuldur yfir að fara hjá þeim miðað við hvað lágt hann liggur hjá formanni kjararáðs Sjómannasambands Íslands.

Mismæli eða ekki?

„Vilji sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjávarútvegsauðlindinni …“

Líklega hefur Sigurður Kári Kristjánsson mismælt sig.

Kannski ekki.

Þætti ekki gott til sjós

Síðasta vika þingsins hefur í stórum dráttum verið með eftirfarandi hætti:

Þingmenn fóru heim í helgarfrí föstudaginn 25. maí. Þriðjudaginn 29. maí var þingfundur í 2 klukkutíma á meðan eldhúsdagsumræður stóðu yfir. Þingmenn mættu svo úthvíldir eftir fjögurra daga frí á miðvikudeginum og líklegir til stórræðanna. Það fór þó þannig að þeir trítluðu heim upp úr kvöldmat sælir og ánægðir. Á fimmtudeginum lauk þingfundi svo síðari hluta dags og vel fyrir kvöldmat gengu þingmenn svo brosandi út í sólinni eftir rólegan dag á þinginu. Í gær virtust þingmenn ætla að taka á sig rögg í umræðu um veiðigjöld, enda ekki seinna vænna fyrir helgina. Þeir héldu hinsvegar aðeins út rétt fram yfir miðnætti þegar upp var staðið. Þá voru enn 17 þingmenn á mælendaskrá.

Sem sagt: Eftir fjögurra daga helgarfrí tókst þingmönnum að halda sig við vinnu í þrjá dagparta og einn heilan dag áður en næsta helgarfrí tók við.

Ég er ekki viss um að svona vinnulag væri tekið gilt um borð á einhverju þeirra skipa sem nú eru á leið til hafnar til að fagna sjómannadeginum.

Og hvað með það?

Það er mikið rætt um óvissu á Íslandi í dag. Forsetinn segist ekki geta hætt vegna óvissu í samfélaginu, án þess að útskýra það neitt frekar. Forsetaframbjóðendur segja óvissu vera í samfélaginu sem kalli á þá frekar en aðra til að róa málin. Stjórnmálafræðingar segja mikla óvissu vera í stjórnmálum sem sé varhugavert. Skapa verði festu á þeim vettvangi að margra mati.

Um hvað er fólk að tala?

Er það einhver sérstök óvissa þó þjóðin sé að taka afstöðu til framtíðar sinnar, t.d. að búa til nýja stjórnarskrá eða velta fyrir sér kostum og göllum ESB?

Er einhver sérstök óvissa fólgin í því þegar almenningur tekur í ríkara mæli en áður þátt í opinberri umræðu og mótar sér skoðun á einstökum málum?

Er það einhver sérstök óvissa í stjórnmálum þó sjálfstæðisflokkurinn sé ekki við völd eins og vant er? Er það ekki bara fínt?

Hvað er að því þó fólk láti skoðanir sínar í ljós? Hvað er að því þó fólk takist á með málefnalegum hætti um framtíð lands og þjóðar? Hefðum við ekki betur gert það nokkrum árum fyrr – öll?

Hvað er að því þó ólga sé í samfélaginu ef rætur hennar liggja í vilja þjóðarinnar til að hafa áhrif á samfélag sitt?

Pages

Subscribe to Björn Valur Gíslason RSS