Einu sinni var til félagsskapur (og er kannski enn til?) sem hét „Samtök um vestræna samvinnu“. Tilgangur samtakanna var að „halda uppi baráttu gegn andstæðingum NATO, hernámsandstæðingum, yfirráðastefnu kommúnistastjórnar Sovétríkjanna fyrrverandi og yfirleitt benda á nauðsyn þess að lönd í Norður-Evrópu væru í varnarbandalagi.“ Þetta voru lengst af lokuð samtök vegna þess að „menn vildu ekki fá yfirlýsta hernámsandstæðinga inn í raðir félagsmanna eða á fundi og ekki heldur starfsmenn sovéska sendiráðsins“.
Svo var líka einu sinni til félagsskapur (og er kannski enn til?) sem hét „Varið land“. Tilgangur félagsins var að tryggja viðvarandi hersetu bandaríkjahers á Miðnesheiði og „efla skilning á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta og vinna að kynningu og samstarfi vestrænna þjóða með áherslu á stefnu og störf Atlantshafsbandalagsins“.
Í viðtali við Morgunblaðið sagði þáverandi formaður Samtaka um vestræna samvinnu að samtökin hafði verið „mjög virk í glímunni við andlýðræðisleg öfl og áttu stóran þátt í baráttunni við róttæka vinstrimenn og öfl sem lögðust gegn aðild Íslands að NATO og vestrænu samstarfi“.
Þáverandi formaður Samtaka um vestræna samvinnu, Jón Hákon Magnússon er nú starfandi sem almanntengill og kom síðast opinberlega fram sem slíkur sem ráðgjafi Geirs H Haarde í Landsdómmálinu. Það var líklega að hans ráðum sem Geir hellti úr skálum reiði sinnar yfir dómstóla landsins á tröppum dómshússins eftir að hafa verið sakfelldur fyrstur mann fyrir Landsdómi sl. vor sem almennt er talið vera eitt stærsta PR-klúður síðari tíma hér á landi.
Jón Hákon Magnússon skrifar grein í morgunblaðið í dag þar sem hann hvetur til þess að landið verði varið fyrir hættulegu fólki frá útlöndum – öðrum útlöndum en Samtök um vestræna samvinnu gúddera. Hann vill verja viðskiptahagsmuni sem Samtök um vestræna samvinnu hafa unnið að árum og áratugum saman. Hann dreymir um að verja landið fyrir „andlýðræðislegum öflum“ sem hvorki eru í NATO eða í vesturheimi. Í hans ranni er líklega mikið talað um gulu hættuna og nauðsynlegt sé að verja hið séríslenska mannkyn með öllum ráðum.
Jón Hákon Magnússon og fleiri slíkir eru líklegir til að gera út á útlendinga- og kynþáttahatur. Þeir eiga sér líklega þann draum að geta blásið nýju lífi um nasir þeirra rotnandi líka sem Samtök um vestræna samvinnu og Varið land eru. Þar þarf engu að breyta, stefna skýr og tilgangurinn sömuleiðis. Það þarf bara að særa þau til lífs að nýju.
Það eru nægar ástæður til að hafna landssölu þó ekki sé gripið til óyndis úrræða eins kynþáttahaturs og útlendingaandúðar. Þó svo að ég geti verið og sé sammála þeim sem vilja fara mjög varlega í því að heimila sölu á stórum landsvæðum til erlendra ríkja eða erlendra fyrirtækja, mun ég aldrei verða í liði með þeim sem beita fyrir sig þeim nationalisma sem margir virðist nú tilbúnir að draga fram úr myrkviðunum.
Tilgangurinn má aldrei helga meðalið.