Ef marka má fréttir eru formenn hægriflokkanna að ræða um lækkun skatta og einföldun skattkerfisins í sumarbústað við Þingvallavatn. Einfalt kerfi, lágir skattar, einfaldar reglur – það virðist vera málið. Þessi hugmyndafræði beið algjört gjaldþrot haustið 2008. Um hana var m.a. skrifaður sérstakur kafli í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (bls. 185):
Hugmyndafræðin
Það kemur víða fram hjá íslenskum ráðamönnum að forsenda útrásarinnar hafi verið einkavæðing bankanna, lágir skattar og einfaldar og skýrar leikreglur sem væru ekki íþyngjandi fyrir fjármálafyrirtækin. Áhrifamesti stjórnmálamaður Íslands síðustu áratuga, Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, dró þetta saman í ræðu sem hann flutti á ársfundi Útflutningsráðs árið 2004: „Útrás íslenskra fyrirtækja er mikið ánægjuefni. Hún hefur víða vakið verðskuldaða athygli og fært heim sanninn um að okkur Íslendingum eru flestir vegir færir. Dugur og kjarkur ásamt hæfilegri bjartsýni fleytir viðskiptamönnum okkar langt ef viðspyrnan er næg. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að landið okkar er í hópi þeirra fimm ríkja heims sem búa að hvað mestri samkeppnishæfni. Við stöndum til að mynda fremst í flokki Evrópuþjóða í þessum samanburði og ég veit að þetta hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir fáum árum. Samkeppnishæfnin endurspeglar kröftugt efnahagslíf sem hefur vaxið mjög að burðum undanfarin ár. Skattar hafa lækkað verulega á fyrirtæki og almenning. […] Einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur án nokkurs vafa mjög styrkt íslenskt efnahagslíf. Mestu skiptir þar einkavæðing ríkisbankanna en íslensku bankarnir hafa leikið lykilhlutverk í útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði. Aðgengi almennings að bankalánum hefur verið stóraukið og er vel að menn þurfi ekki lengur að ganga milli ríkisbanka með velkt pottlokið í höndum að kría út víxla eins og algengt var.“
Ætli strákarnir séu með skýrsluna með sér í bústaðnum?