Pínlegt á að horfa

Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins hefur stýrt flokknum ofan í dýpstu lægð hans frá upphafi vega. Verstu útreiðina fékk flokkurinn vorið 2009 og þá næst verstu sl. laugardag. Samt sem áður lítur formaðurinn þannig á að flokkurinn eigi skilyrðislaust að vera í leiðandi hlutverki ríkisstjórn. Hvers vegna ætti það að vera þannig? Hvað hefur flokkurinn afrekað til að vera trúað fyrir slíku ábyrgðarhlutverki? Hefur formaðurinn sýnt það af sér að honum sé treystandi til að stýra landinu?

Formaður flokks sem vælir undan því að vera ekki fyrsti kostur í stjórnarmyndunarviðræðum getur varla talist vera í því jafnvægi sem krefjast verður til alvöru verka. Formaður flokks sem getur ekki á heilum sér tekið vegna þess að líkur eru á því að hann verði áfram utan stjórnar, jafn augljóst og það er í þessu tilfelli, á ekki erindi í ríkisstjórn. Slíkur formaður þarf á langvarandi tíma í stjórnarandstöðu að halda og nota þann tíma til að læra að sýna auðmýkt gagnvart viðfangsefnum sínum.

Örvænting og vonbrigði Bjarna Benediktssonar eru pínleg á að horfa og hæfa honum engan veginn.

Satt best að segja átti ég von á öðru úr þeirri áttinni.