Stjórnmálafræði hefur mér ævinlega þótt áhugaverð og stjórnmálafræðingar þar af leiðandi líka í því samhengi. Á heimasíðu Háskóla Íslands má sjá ágætt yfirlit yfir námið og hvernig það er byggt upp. Fljótt á litið (skiljanlega) virðist um að ræða mikla sagn- og samanburðarfræði og alþjóðasamskipti (í grófum dráttum) auk margs annars sem vekur áhuga. Stjórnmálafræðingar eru áberandi í fjölmiðlum í pólitískri umfjöllun, t.d. í aðdraganda og kjölfar kosninga og eru þá gjarnan fengnir til að rekja söguna og spá í spilin út frá því sem áður hefur gerst. Flestir þeirra spá því nú að Framsóknarflokkur og sjálfstæðisflokkur myndi næstu ríkisstjórn og það sé jafnframt augljósasti kosturinn í stöðunni. Sú spá virðist byggð á sögunni, þ.e. að þessir tveir flokkar hafa oft starfað saman ef þeir hafa haft til þess öruggan meirihluta. Annað er ekki svo augljóst fyrir leikmann eins og mig. Hvað eiga þessir tveir flokkar t.d. sameiginlegt svo að augljóst sé að þeir muni starfa saman? Er það aðeins vegna þess að þeir hafa meirihluta tveir saman? Er það aðeins vegna þess að um þessa tvo flokka er að ræða en ekki aðra tvo? Eða er það vegna þess að þeir geta myndað tveggja flokka stjórn en ekki aðrir og þá í framhaldinu - hvað er betra við tveggja flokka stjórn en þriggja flokka? Auðveldasta leiðin til að komast að því hvaða flokkar eiga best saman er að bera saman stefnu þeirra og samþykktir. Þá kemur ýmislegt athyglisvert í ljós fyrir okkur áhugamennina sem gerir hið augljósa ekki eins augljóst og okkur er sagt að sé.
Hér má sjá stefnu Vinstri grænna og ályktanir síðasta landsfundar
Hér má sjá stefnu Framsóknarflokksins og ályktanir síðasta flokksþings
Hér má sjá stefnu sjálfstæðisflokksins og ályktanir síðasta landsfundar
Hér má sjá stefnu Samfylkingarinnar og ályktanir síðasta landsfundar
Svo er bara að leggjast yfir þetta og athuga hvernig landið liggur.
Gæti verið skemmtilegt verkefni fyrir sprækan stjórnmálafræðing.