Þeir eru til sem halda að hægt sé að auka hagsæld með því að prenta peninga. Aðeins þurfi að prenta nóg svo að allir hafi alltaf nægt fé á milli handanna. Svo virðist sem ótrúlega stór hluti þjóðarinnar trúi því að þetta sé rétta leiðin til að létta byrðum Hrunsins af landsmönnum eins og sýndi sig í fylgi framsóknarflokksins í kosningunum í vor. Svo eru aðrir sem telja að peningar séu lítils virði ef ekki eru einhver verðmæti á bak við þá. Til að svo verði þurfi að búa eitthvað til, skapa eitthvað, veiða fisk, búa til tónlist, kenna börnum, búa til kvikmyndir, sinna sjúklingum, þjóna ferðamönnum og annað sem við flest hver gerum á degi hverjum. Þannig fáist mæling á verðmæti peninganna sem væru annars tæpast pappírsins virði.