Í grein í blaði sjálfstæðisflokksins í dag segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra eftirfarandi um heilbrigðiskerfið: „Að óbreyttu stefnir í að það vanti 8.600 milljónir á þessu ári til að leysa fjárhagsvandann, þar af er uppsafnaður vandi fyrri ára um eða yfir 3.800 milljónir króna.“ Kristján Þór boðar síðan mikinn niðurskurð til að mæta þessum vanda.Í umsögn skrifstofu opinberra fjármála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu með frumvarpi um lækkun veiðigjalda segir m.a.: „Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum fyrir aflaheimildir verði 3,2 mia. kr. lægri á árinu 2013 frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og að tekjurnar geti orðið 6,4 mia. kr. lægri á árinu 2014 en áætlað var.“
Í Ríkisreikningi fyrir árið 2008 má á bls. 12 sjá að Landspítalinn var þá rekinn með 1.638 milljón króna halla og í Ríkisreikingi fyrir árið 2009 má á bls. 36 sjá að Landspítalanum var skilað úr góðærinu með halla upp á 2.976 milljónir króna. Þáverandi forstjóri Landspítalans sagði Landspítalann í raun hafa komið gjaldþrota út úr Hruninu og hvorki átt fyrir lyfjum né launum. Við sem komum að ríkisrekstrinum vorið 2009 vitum að þannig var það.
Í stuttu máli: Undir stjórn þáverandi heilbrigðisráðherra sjálfstæðisflokksins varð Landspítalinn, sjálfur þjóðarspítalinn, tæknilega gjaldþrota í mesta góðæri sögunnar. Núverandi heilbrigðisráðherra sjálfstæðisflokksins boðar gríðarlegan niðurskurð til að mæta tekjutapi af lækkun veiðigjalds sem er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Svo skrifa þau greinar eins og Kristján Þór Júlíusson skrifar í dag og setja á fót sérstaka hópa til að bregðast við vanda sem þau sjálf hafa skapað.
Þvílíkur loddaraskapur.
Þvílíkt lýðskrum.