Kóngur einn dag ...

Í gær fékk ég fleiri afmæliskveðjur en nokkru sinni áður. Þökk sé feisbúkk. Ég hafði það á tilfinningunni að ég hefði ekki átt jafn marga vini síðan í tíu ára afmælinu mínu. Það var reyndar eftirminnilegt afmæli fyrst það er nefnt. Öllum strákunum í götunni og þrem næstu götum var boðið. Þeir mættu allir og sumir með vini sína með sér. Það varð til þess að pylsurnar sem boðið var upp á dugðu ekki handa öllum. Einhverjir fóru en flestir létu sig hafa það. Mamma hafði hins vegar að venju bakað meira en nóg handa öllum og mömmunum hinna strákanna líka sem komu allar í kaffi, sumar með dætur sínar. Mest þó til að sinna öryggisgæslu. Eftir hina formlegu veislu var skipt í lið í allskonar leiki sem ég man ekki lengur hverjir voru. Líklega var þó farið í yfir, fótbolta og reiptog. Það var alla vega algengt þá. Hitt man ég þó að á einhverjum tímapunkti brutust út slagsmál milli mín og minna manna og hinna sem ekki var boðið í veisluna og stuðningsmanna þeirra. Eftir það fækkaði aðeins í veislunni. Strákurinn í næsta húsi fann svo dauða mús sem við skemmtum okkur með. Stuttu síðar fóru allar stelpurnar heim með mömmum sínum. Nema systir mín sem við lokuðum inni í geymslu undir stiganum. Frændi minn í næstu götu, ári yngri en ég, reiddist út af einhverju og við slógumst eins og hundar. Man að ég fékk blóðnasir og stein í hausinn og þurfti að skipta um föt. Frændi var alltaf miklu harðari en ég. Hann fór síðar í listnám og er nú þekktur fyrir höggmyndir sínar, skiljanlega. Síðar um daginn fórum við frændi (sá höggþungi) og fleiri strákar í götunni á móti gangnamönnum og fylgdum þeim með reksturinn yfir ósinn og í réttina. Á leiðinni heim komum við svo við í Fjósahverfinu og brutum þær rúður sem við áttum eftir að brjóta og líka nýja glerið sem bændurnir höfðu sett í fyrir veturinn. Mamma tuktaði mig til fyrir það síðar um kvöldið. Eitthvað fleira átti hún órætt við mig eftir daginn sem hún fór lauslega yfir með mér og var gleymt næsta morgun. Afmælisskeytið frá pabba sem var á sjó var það sem ég varðveitti lengst af gjöfunum sem ég fékk í tilefni afmælisins. Eins og alltaf.
Það jafnast fátt á við gott afmæli.
Maður hefur líka alltaf smá smá forskot  á deginum sínum.