Þrettán þingmenn sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu á Alþingi um að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd til að rannsaka viðbrögð stjórnvalda við Icesave-málinu. Af því tilefni skrifar Elín Hirst, ein þrettánmenninganna, pistil þar sem hún segist ekki vilja að Alþingi sæki menn til saka ef rannsóknin gefur tilefni til þess. Þetta er undarleg afstaða þingmanns sem vill láta rannsaka málið til enda. Hvað ef niðurstaða rannsóknarinnar verður sú að fyrrverandi fjármálaráðherra hafi gerst brotlegur við landslög vegna málsins? Eða þáverandi Seðlabankastjóri hafi skaðað hagsmuni Íslands með framferði sínu? Eða þáverandi forsætisráðherra hafi ekki rækt skyldur sínar við að leysa málið? Eða þáverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu ...? Hvað ef rannsóknarnefnd þrettánmenninganna kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að láta reyna á ábyrgð þessara manna eða einhverra annarra fyrir dómstólum, t.d. Landsdómi á grundvelli laga um ábyrgð þeirra?
Hvað ætlar þingmaðurinn þá að gera?
Bregðast skyldum sínum sem þingmaður?
Vonandi ekki.